Síldarvinnslan semur um nýsmíði tveggja nýrra skipa

Síldarvinnslan hefur skrifað undir samninga við norskt fyrirtæki um nýsmíði á tveimur nýjum togurum. Alls undirrituðu fulltrúar fjögurra íslenskra útgerða samninga um smíði á sjö samskonar skipum.

Nýsmíðin er liður í endurnýjun á ísfisktogara Síldarvinnslunnar sem tilkynnt var um í sumar. Í þessum kafla er verið að endurnýja Vestmannaey VE og Bergey VE sem eru í eigu Berg-Hugins, dótturfélags síldarvinnslunnar.

Áætlað er að smíði hvors skips taki 14 mánuði, hið fyrra verði afhent í mars 2019 en hið síðara í maí sama ár.

Norska fyrirtækið VARD mun smíða og hanna skipin. Þau verða 29 metrar að lengd og 12 metrar að breidd. Val á búnaði í skipin verður í samstarfi við útgerðirnar.

„Ástæða þess að ákveðið var að semja við VARD er sú að um er að ræða öflugt fyrirtæki, þar sem ferlið frá hönnun skips til afhendingar á fullbúnu skipi er á hendi sama aðila. Því er aðeins við einn aðila að semja,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd dótturfélagsins.

Auk skipanna sem smíðuð verða fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin verða tvö skip smíðuð fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney – Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa.

Tölvuteikning af nýjum togara Bergs-Hugins. Mynd: Síldarvinnslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar