„Sjálfur hef ég alltaf verið heillaður af húsinu og sögu þess"

„Við erum í raun að opna Vinnustofu Kjarvals aftur. Rými þar sem fyrirtæki og einstaklingar í öllum geirum geta komið saman og unnið á daginn og lyft sér upp á kvöldin, ekki ósvipað því sem Kjarval sjálfur gerði í árdaga,” segir Norðfirðingurinn Hálfdán Steinþórsson, eigandi hugbúnaðarfyrirtækisins GoMobile og einn þeirra sem hefur unnið að endurgerð vinnustofu listamannsins Jóhannesar S. Kjarvals í 400 fermetra húsnæði í Austurstræti.

Sjálfur hefur Hálfdán verið með skrifstofuaðstöðu í húsinu. „Í þau fimm ár sem ég hef verið með skrifstofuaðstöðu í Austurstræti 12, hef ég tekið á móti fjölda viðskiptavina og háskólanema sem hafa ýmist komið á fundi eða í vísindaferðir. Allir hafa þeir dáðst af útsýninu yfir Austurvöll og sögu hússins. Einnig hef ég síðustu ár boðið góðu fólki sem er að gera skemmtilega hluti vinnuaðstöðu hjá okkur til að geta unnið í opnu rými svo allir geti lært og kynnst nýjum hlutum.

Flestir dagar byrjuðu eins, þar sem við fórum út á svalir snemma morguns með fyrsta kaffibollann og horfðum yfir Austurvöll. Það var einmitt þar sem hugmyndin kviknaði, þar sem við horfðum yfir handriðið á Austurstræti 10, sem var næsta hús við hliðina og stóð tómt, hvort ekki ráð að stækka rýmið og gera þar veröld sem myndi fanga það sem við höfum verið að gera síðustu ár,” segir Hálfdán.


Alltaf verið heillaður af húsinu og sögu þess
Húsið á sér merka sögu. „Eftir brunann mikla 1918 var Austurstræti 10 og 12 byggt upp aftur. Endurbyggingu lauk árið 1929 og sama ár flutti Jóhannes Kjarval inní risið í Austurstræti 12. Þar hafði hann aðsetur og vinnustofu allt til ársins 1971, eða mestan part sinnar starfsævi. Inní þessu rislofti málaði hann margar sínum frægustu myndum á veggina, til dæmis Lífshlaupið. Sjálfur hef ég alltaf verið heillaður af húsnæðinu og sögu þess. Staðsetningin og útsýnið er einstakt, ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum myndi ég telja. Að vera með útsýni á elsta þjóðþing heims, umvafið sögu þjóðar er algjörlega einsktakt. Auðvitað er fátt sem toppar útsýnið yfir Norðfjörðinn og yfir á Barðsnes á góðum sumardegi en þetta er ekki síðra.”


Tímarnir hafa breyst gríðarlega
Draumurinn sem kviknaði á svölunum er að rætast, en Hálfdán og félagar hafa síðustu mánuði unnið hörðum höndum að endurgerð húsnæðisins og Vinnustofa Kjarvals nær nú yfir tvær efstu hæðir Austurstrætis 10 og 12 þar sem opnað var á milli húsanna. Meðal þeirra er Eskfirðingurinn Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson, en hann verður framkvæmdastjóri vinnustofunnar. Formleg opnun verður eftir viku. 

„Fyrirmyndin kemur í raun úr mörgum áttum. Eins og áður segir er hugmyndin sú að einstaklingar og fyrirtæki geti unnið í opnu rými til að efla tengslanetið og skiptast á hugmyndum. Við horfum til staða eins og „Soho House” sem hefur aðstetur í stærstu borgum heims með þetta að leiðarljósi að tengja saman fólk og fyrirtæki sem hafa áhuga að vinna og upplifa í opnum rýmum.”

Húsnæðið er bæði hugsað sem vinnustaður og félagsheimili þar sem skapandi fólk kemur saman til vinnu og skemmtunar. Hálfdán segir fjölda fyrirtækja og einstaklinga úr ýmsum áttum þegar hafa tryggt sér pláss

„Tímarnir hafa breytst gríðarlega mikið, hreyfanleiki margra fyrirtækja og einstaklinga er vaxandi þar sem hægt er að sinna verkefnum hvar og hvenær sem er. Því má segja að tími þess að sitja við stórt skirfborð með mynd af fjölskyldunni og hundinum sé að renna sitt skeið, í það minnsta fyrir hóp fyrirtækja og einstaklinga. Miðað við þau viðbrögðin sem við höfum fengið er þörfin fyrir svona staði mikil og þessi hugmyndafræði fer vaxandi um allan heim með tilkomu tæknialdarinnar.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.