Skíðafarar komnir heim
Um 160 Austfirðingar, sem í gær voru innlyksa í ítalskri skíðaparadís, lentu á Egilsstöðum um klukkan hálf þrjú í dag. Þjálfari í hópnum segir heimferðina hafa gengið vel.„Heimferðin gekk ljómandi vel. Það eru allir ánægðir að sjá snjóinn hér eystra og vonast til að skíðasvæðin fari að opna,“ segir Guðný Margrét Bjarnadóttir, þjálfari hjá Skíðafélagi Fjarðabyggðar.
Hópurinn hélt utan þann 3. janúar til Livigno í Ölpunum, nyrst á Ítalíu. Upphaflega átti hópurinn að fljúga heim í gær frá Zürich í Sviss. Rútur sem áttu að sækja hópinn komust hins vegar ekki alla leið í gærmorgun vegna mikilla snjóa sem hrella íbúa í Ölpunum.
Ný ferðaáætlun var búin til og hópurinn lagði af stað í suður áttum hálf þrjú að íslenskum tíma í gær. „Við keyrðum 50 km leið á keðjum, þess utan var sumarfæri og 10 stiga hiti. Það var komið meira sumar en við höfum síðustu daga.“
Hópurinn gisti á tveimur hótelum í nágrenni Bergamo flugvallar, sem þjónar Mílanó, í nótt eftir að hafa komið þangað upp úr klukkan sjö í gær. „Við fengum góð hótel og það fór vel um okkur,“ segir Guðný.
Flugvélin með ferðalöngunum hóf sig svo í loftið frá Bergamo-velli á ellefta tímanum í morgun og lenti sem fyrr segir klukkan hálf þrjú. Ferðin var skipulögð af Ferðaskrifstofu Akureyrar og ber Guðný Margrét skrifstofunni söguna vel eftir að hafa aðstoðað hópinn við að komast heim.
Hópurinn á Bergamo-flugvelli í morgun. Mynd: Guðný Margrét Bjarnadóttir