Skíðafólk pirrað yfir brekkunum í Oddsskarði

Skíðaiðkendur í Oddsskarði eru óánægðir með þann aðbúnað sem þeim er boðinn upp á. Foreldrar skíðabarna hafa áhyggjur af meiðslum í brekkunum. Rekstraraðilar segja erfitt að halda svæðinu við í umhleypingasamri tíð.

Austurfrétt hefur undanfarna daga rætt við skíðafólk sem stundar Oddsskarð og þekkir svæðið mjög vel. Enginn vildi koma fram undir nafni og báru viðmælendur því við að málið og samskipti vegna þess séu viðkvæm. Þeir eru þó sammála um að pirringur hafi byggst upp í nokkurn tíma.

Draga má gagnrýnina saman í nokkur megin atriði. Í fyrsta lagi að brekkurnar séu ekki nógu vel troðnar. Þannig sé oft bara troðið þunnt lag ofan á mýkra undirlag sem geti skapað meiðslahættu. Þetta valdi foreldrum áhyggjum. Eins séu brekkurnar yfirleitt troðnar samdægurs en ekki á kvöldin eftir opnun eins og á öðrum svæðum þannig þær frjósi yfir nótt og séu tilbúnar til skíðaiðkunar daginn eftir. Skíðaiðkendur séu þess vegna alltaf í mjúkum brekkum.

Í öðru lagi hafa viðmælendur Austurfréttar lýst furðu sinni á hversu oft sé lokað, annað hvort svæðið í heild, eða einstök svæði eins og efsta lyftan.

Í þriðja lagi þykir skíðafólkinu það tala fyrir daufum eyrum þegar það komi kvörtunum sínum á framfæri.

Sumir vilja mjúkt undirlag, aðrir hart

Marvin Ómarsson, rekstrarstjóri í Oddsskarði, segist aðallega hafa heyrt óánægjuraddir „utan úr bæ“ og telur aðfinnslurnar ekki eiga við rök að styðjast. Hann bendir á að erfitt sé að halda svæðinu góðu þegar þiðni og frysti á víxl og vandasamt sé að þóknast mismunandi notendahópum.

„Við troðum á kvöldin ef við getum, en það þýðir ekki ef snjóar eða rignir um kvöldið. Á öðrum skíðasvæðum, til dæmis Bláfjöllum, er, líkt og hér, mætt á morgnana og byrjað að troða. Þegar snjóar á hverju kvöldi og troðið á morgnana verður undirlagið alltaf mjúkt“ segir Marvin.

Hann bætir við að erfitt sé að þjóna mismunandi markhópum. Brettafólk og almennir gestir vilji hafa brekkurnar mjúkar og frá þeim, sem og innlendum sem erlendum gestum, hafi rekstraraðilar fundið fyrir mikilli ánægju. Þeir sem æfi skíði vilji hins vegar harðari brekkur og þeir hafi helst verið ósáttir. „Það er erfitt að þóknast öllum. Þeir sem vinna á troðurunum hjá okkur eru með áratuga reynslu, við vitum hvað við erum að gera.“

Veðrið setur strik í reikninginn

Tíðarfarið hafi einnig gert erfitt fyrir um við að halda svæðinu opnu. „Við opnuðum 19. janúar og með deginum í dag erum við komin með 29 opnunardaga og 14 lokaða. Það telst almennt gott að vera með 50% opnun. Ég held að það séu bara komnir fleiri opnunardagar í Hlíðarfjalli og á Siglufirði.

Veðrið hefur verið umhleypingasamt í janúar og febrúar, sérstaklega í janúar og þá var erfitt út af ísingu líka. Við höfum unnið á lágmarkssnjó síðan við opnuðum, það gerðum við á nánast engum snjó og síðan hefur lítið bæst við. Topplyftan hefur verið snjólaus og meðal annars verið lokuð þess vegna. Þetta eru hlutir sem við stjórnum ekki. Í efstu lyftunni er heldur ekki lýsing svo hún getur aðeins verið opin um helgar.“

Viðmælendur Austurfréttar voru sammála um að umhleypingasamt veður hefði sett strik í reikninginn en töldu það aðeins hluta vandans.

Marvin bendir einnig á að erfitt sé að bera saman aðstæður í Oddskarði við til dæmis skíðasvæði Dalvíkinga sem sé með snjóframleiðslu. „Það er eins og að bera saman Trabant og Benz. Brekkur með snjóframleiðslu verða slitmeiri, harðari og þéttari.“

Farið yfir stöðu og framtíð svæðisins

Fram til ársins 2015 var skíðasvæðið rekið á vegum sveitarfélagsins en þá var því útvistað til Austurríkis ehf. Viðmælendur Austurfréttar voru sammála um að svæðið hefði verið mjög gott fyrsta veturinn en síðan hafi fjarað undan henni. Marvin segir þá sem æfa skíði hafa verið ánægða fyrsta veturinn en í fyrra hafi komið fram nokkur gagnrýni og hún hafi komið á óvart.

Fulltrúar skíðafólks, brettaiðkenda, Fjarðabyggðar og Austurríkis ehf. hittast á fundi á mánudag til að fara yfir málin í Oddsskarði.

Samningur sveitarfélagsins við Austurríki ehf. gildir fram í september 2020. Samkvæmt gildandi samningi þarf sveitarfélagið að taka ákvörðun fyrir lok júní 2019 um framlengja skuli samninginn. Til að meta samninginn skipaði bæjarráð starfshóp á fundi sínum á mánudags.

Í hópnum verða Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri sem jafnframt er formaður, Pálína Margeirsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar, Sigríður Margrét Guðjónsdóttir varaformaður íþrótta- og tómstundanefndar, Dýrunn Pála Skaftadóttir bæjarfulltrúi, Valgeir Ægir Ingólfsson atvinnu- og þróunarstjóri, Bjarki Ármann Oddsson íþrótta- og tómstundastjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar