Skip Síldarvinnslunnar gerð tilbúin til makrílveiða

Stefnt er að því að Börkur, Barði og Beitir, skip Síldarvinnslunnar, fari til makrílveiða í vikunni. Vinnsla félagsins í Neskaupstað verður um svipað leyti tilbúin til að taka á móti hráefni þótt viðbúið sé að einhvern tíma taki að finna fiskinn.

„Við erum að gera okkur klár. Börkur er í Skagen í Danmörku og Barði og Beitir hér í Neskaupstað. Við gerum ráð ráð fyrir að þeir fari allir af stað í vikunni.

Börkur hefur verið í reglubundnu viðhaldi sem á að ljúka á allra næstu dögum. Hann fer væntanlega fyrstur af stað því hann á lengstu siglinguna framundan,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar.

Í dag var Polar Amassak, skip frá grænlenskri útgerð sem Síldarvinnslan á hlut í, við netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað. Grétar segir að skipið sé gert klárt til veiða á makríl og síld, líkt og systurskipið Polar Amaroq. Polar Amaroq er á síldveiðum norður af landinu en Polar Amassak byrjar væntanlega í makrílleit.

Viðbúið að tíma taki að leita að makrílnum


Makríllinn dvelur í heitari sjó á veturna en gengur norðar þegar hlýna tekur á vorin og sumrin. Hann fer ekki alltaf sömu leiðina en hitastig sjávar virðist ráða miklu um ferðir hans. Varað hefur verið við að óvenju kaldur sjór úti fyrir Austfjörðum um þessar mundir kunni að fæla hann frá.

„Það þarf að leita að makrílnum og viðbúið að það taki tíma. Við byrjum sunnan og suðaustan við landið. Það eina sem er öruggt er að makrílveiðin er aldrei eins en við erum bjartsýn,“ segir Grétar.

Stefnt er á því að vinnsla geti hafist í lok vikunnar eða um næstu helgi. Skip Síldarvinnslunnar eru áfram í veiðisamstarfi við Samherja, eins og þau hafa verið frá árinu 2020. Aðspurður um horfur á mörkuðum segir hann þær fínar.

Eftir því sem næst verður komist eru aðrar útgerðir ekki farnar til makrílleitar en viðbúið að þær séu að verða tilbúnar. Þannig er Jón Kjartansson, skip Eskju, nýlagður af stað heim eftir að hafa verið í slipp í Færeyjum undanfarinn mánuð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar