Skipulag við Lambeyrarbraut ógilt

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál telur slíka annmarka hafa verið á meðferð Fjarðabyggðar við breytingu á miðbæjarskipulagi á Eskifirði að ógilda skuli skipulagið. Sveitarfélagið svaraði ekki athugasemdum íbúa við götun þar sem þær voru ekki sendar með undirritun hans.

Breytingin varðar deiliskipulag við götuna Lambeyrarbraut en því var breytt vegna ofanblóðavarna við Lambeyrará.

Breytingarnar voru kynntar íbúum vorið 2020. Fyrst átti að breyta götunni í botngötu en síðan vistgötu, sem varð niðurstaða sveitarfélagsins. Jafnframt var samþykkt að bæta við einbýlishússlóð milli húsa númer 1 og 3, en henni var bætt við í nóvember í fyrra.

Hluti íbúa gerðu strax athugasemdir við tillögurnar. Töldu þær þrengja verulega allri umferð um götuna, sérstaklega með viðbótarhúsi. Slíkt væri varhugavert á svæði þar sem hætta væri á skriðuföllum og ofanflóðum. Íbúarnir gagnrýndu tillögurnar einnig fyrir að vera óskýrar og óljóst hvaða áhrif þær hefðu á eignir þeirra.

Þeir sendu meðal annars undirskriftalista til bæjarstjórnar sem kom þó ekki í veg fyrir að skipulagið væri afgreitt úr nefnd um miðjan mars. Það var auglýst og síðar sent Skipulagsstofnun sem staðfesti það. Bæjarstjórn afgreiddi það síðan í byrjun maí.

Á kynningartímanum bárust þrjár skriflegar athugasemdir til sveitarfélagsins og var tveimur þeirra svarað efnislega, eins og lög gera ráð fyrir. Sveitarfélagið svaraði ekki þriðju athugasemdinni þar sem sá sem að baki henni stóð sendi hana ekki inn undirritaða, þrátt fyrir áskoranir skipulagsfulltrúa þar um.

Við það sætti hann sig ekki og kærði. Sveitarfélagið vísaði til ákvæða í stjórnsýslulögum um að því væri heimilt að krefjast þess á hvaða formi athugasemdir bærust. Þá taldi sveitarfélagið athugasemdirnar ekki frábrugðnar öðrum sem borist hefðu og þeim þannig svarað efnislega.

Á það féllst úrskurðarnefndin ekki, aðeins væri þess krafist að athugasemdir væru skriflegar en ekki nánar kveðið á um form þeirra. Hver sem telji sig eiga hagsmuna að gæta fái frest til að gera athugasemdir og rétt á málefnalegri afstöðu til þeirra.

Úrskurðarnefndin telur að Fjarðabyggð hafi borið að taka athugasemdirnar til umfjöllunar, svara þeim og senda viðkomandi svarið. Það hafi ekki verið gert. Þetta leiði til þess að annmarkarnir séu slíkir að ógildingu varði og er skipulagið því fellt úr gildi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.