Skipulagðri leit hætt
Skipulagðri leit að Axel Jósefssyni Zarioh, sem talinn er hafa fallið frá borði af skipinu Erling KE-140 sem kom inn til hafnar á Vopnafirði í síðustu viku, hefur verið hætt í dag.Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi munu félagar í björgunarsveitinni Vopna á Vopnafirði þó áfram leita á sjó í fjöru en dregið verður úr þunga leitarinnar og skipulagi.
Staðan verður endurmetin þegar líður að næstu helgi og ákvörðun þá tekin um framhaldið.
Um 90 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leit í gær, frá sveitum frá Djúpavogi allt til Akureyrar, með flygildi og þrívíddarskanna sér til fulltingis. Leitað var frá Selnibbu, norðanmegin í Vopnafirði, inn sandfjörur og út að Búri sunnan megin í firðinum en án árangurs.