Hátt í 200 manns leita í Vopnafirði
Björgunarfólk leitar enn að skipverja sem talinn er hafa fallið fyrir borð af fiskiskipi sem kom til hafnar á Vopnafirði fyrri partinn í gær. Aðstæður til leitar eru eins góðar og hægt er að vonast eftir.Um umfangsmikla leit er að ræða en Jón Sigurðsson, formaður Björgunarsveitarinnar Vopna, segir að alls taki 187 manns þátt í aðgerðum. Stærstur hluti þess hóps kemur frá björgunarsveitum af öllu Austurlandi og allt norður til Húsavíkur. Liðinu er skipt í 45 leitarhópa.
Veður í Vopnafirði er með besta móti til leitar, en bjart er yfir og stillt. Að sögn Jóns hefur verið unnið út frá sama leitarsvæðinu frá því aðgerðir hófust í bítið í morgun, en um er eða ræða Vopnafjörð allan, frá Bjarnarey, yfir í Strandhöfn og inn í Sandvík.
Leitað er á um 20 bátum og skipum, þar af þremur björgunarskipum, og flugvél Landhelgisgæslunnar fór í loftið frá Vopnafjarðarflugvelli til leitar laust fyrir hádegi. Þá er einnig notast við flygildi við leitina, sem og neðansjávardróna frá björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði. Þá ganga leitarhópar meðfram fjörum.
Jón segir að farið verði skipulega yfir leitarsvæðið núna fram eftir degi og staðan síðan endurmetin eftir það.
Mynd frá leitinni: GG