Óskoðað hreindýrakjöt á veitingastöðum: Reglum breytt um heimtekið kjöt
Sterkar vísbendingar eru um að veitingastaðir bjóði upp á hreindýrakjöt sem ekki hefur verið heilbrigðisskoðað. Reglum hefur því verið breytt þannig að kjöt sem veiðimenn taka til eigin nota frá verkunarstöðvum.
Fyrir yfirstandandi veiðitímabil var reglum breytt þannig að kjöt sem veiðimaður tekur af verkunarstöð til eigin nota verði sérstimplað „heimtekin villibráð“ auk lögbundinnar heilbrigðismerkingar.
Reglunum var breytt því sterkar vísbendingar eru um að talsvert af hreindýrakjöti sem meðal annars er á boðstólum á veitingastöðum hafi ekki verið heilbrigðisskoðað. Aðeins um 15% þeirra dýra sem felld voru í fyrra fóru í gegnum einu löggiltu verkunarstöðina og engin dýr voru skoðuð í sláturhúsum
„Hluti vandans felst í því að hluti þeirra dýra sem eru heilbrigðisskoðuð eru í framhaldinu tekinn heim af veiðimönnum en með því slitnar órofin kælikeðja afurðanna. Með þessari breytingu er verið að tryggja að það kjöt sem fer beint frá verkunarstöð hafi áfram lögbundna heilbrigðismerkingu,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.
„Þannig geta veitingahús greint á milli þess kjöts sem þeim er boðið og einungis verið með löglega verkað kjöt á sínum matseðlum. Þannig á ekki að vera mögulegt að selja áfram kjöt sem hefur þessa nýju merkingu, enda ekki hægt að tryggja öryggi þess í áframhaldandi geymslu og flutningi hjá einkaaðila sem ekki hefur starfsleyfi, né er háður opinberu eftirliti.
Samhliða þessari breytingu á reglugerðinni er fyrirhugað að fylgja málinu eftir af hálfu Heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna, með átaki í eftirliti á veitingastöðum og verslunum til að tryggja að einungis heilbrigðisskoðað kjöt sé á boðstólum.“