Skoða loðnugöngur við Húnaflóa og Eyjafjörð

Aðalsteinn Jónsson, skip Eskju og Polar Ammassak, skip grænlensks hlutdeildarfélags Síldarvinnslunnar, luku í nótt yfirferð á fyrirfram skipulögðu leitarsvæði eftir loðnu. Bætt hefur verið við leitina eftir að fregnir bárust af loðnu á ferðinni nær landi.

Skipin fóru frá Eskifirði og Neskaupstað á mánudagskvöld og leituðu úti fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum. Guðmundur Óskarsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að ekki sé búið að fara nákvæmlega yfir mælingar skipanna en þau hafi lítið orðið vör við loðnu.

Skipin luku leitinni í nótt, áður en veður á þessum slóðum fór að versna. Polar er nú kominn inn á Húnaflóa og Aðalsteinn er þar fyrir utan.

Guðmundur segir að fregnir hafi borist af loðnutorfum úti fyrir Húnaflóa og Eyjafirði. Það geti verið vísbending um að loðna sem fannst fyrr í mánuðinum norðvestur af landinu og varð til þess að örkvóti var gefinn út kunni að vera þar á ferðinni.

Skipin muni því þess vegna færa leit sína nær landinu og sigla til austurs. Vonast sé til að þeirri yfirferð ljúki á morgun en veðrið er skaplegra nær landinu. „Það kemur í ljós hversu langt til austurs við förum. Stóra spurningin núna er hvar loðnan ætlar að hrygna,“ segir Guðmundur.

Íslensku loðnuskipin hafa veitt kvóta sinn í þessari viku enda kvóti flestra útgerða vart meiri en svo að hann dygði í eina ferð á skip. Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í morgun og Venus til Vopnafjarðar í gær. Jón Kjartansson landaði á Eskifirði á miðvikudag og fór aftur út í morgun. Flest austfirsku uppsjávarveiðiskipin hafa verið á kolmunnaveiðum á Rockall-svæðinu vestur af Írlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar