Skoða staðsetningu undir hugsanlegan skrúðgarð í Fellabæ
Af hálfu Múlaþings er nú skoðað hvort gróið svæði út frá atvinnulóð að Lagarbraut í Fellabæ teljist hentugur kostur undir almennings- eða skrúðgarð.
Ósk um almennings- eða skrúðgarð í þorpinu var meðal þeirra hugmynda sem fram komu frá íbúum vegna samfélagsverkefna heimastjórna sveitarfélagsins. Gegnum það verkefni gefst almenningi á hverjum stað kostur á að koma hugmyndum sínum á framfæri, fá umfjöllun og yfirlegu innan stjórnkerfisins og hugsanlega sjá hugmyndina verða að veruleika í kjölfarið.
Upphaflega barst heimastjórn Fljótsdalshéraðs fyrirspurn um hvort ekki mætti nýta lóðina að Lagarbraut 5 undir almennings- eða skrúðgarð en sú lóð er auð og ónotuð. Við Lagarbraut er nánast eingöngu atvinnuhúsnæði en þar má meðal annars finna skoðunarstöð Frumherja, bílaleigu Höldurs auk Rammalausna Sigrúnar.
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings fjallaði um hugmynd þessa fyrir skömmu en þar taldi ráðið ekki forsendur til að setja upp slíkan garð á umræddum stað. Ráðið fól þó bæði verkefnastjóra umhverfismála sem og garðyrkjustjóra sveitarfélagsins að taka til skoðunar hvort grænt svæði meðfram útivistarstíg ofan við Lagarbraut 7 og að Fjöluhvammi gæti hugsanlega hentað undir almenningsgarð.
Svæðið sem er til skoðunar undir einhvers konar almennings- eða skrúðgarð fyrir íbúa Fellabæjar. Mynd AE