Möðrudalsöræfi lokuðust vegna bíla í vandræðum
Þrjár björgunarsveitir komu að aðgerðum vegna bíla í vanda á Möðrudalsöræfum undir kvöld. Vegurinn er aðeins talinn fær bílum sem búnir eru til vetraraksturs.Vegagerðin sendi frá sér tilkynningu um klukkan hálf sex í kvöld um að Háreksstaðaleið væri lokuð vegna húsbíla sem þveruðu veginn. Þar væri hált, hvasst og blint.
Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar voru 2-3 húsbílar komnir þversum á veginum og lokuðu honum. Of hvasst var til að eiga við þá, en þegar lægði var hægt að koma þeim til hliðar og opna veginn. Björgunarsveitir frá Vopnafirði, Jökuldal og Mývatni komu að aðgerðum, auk ábúenda í Möðrudal og Vegagerðinni.
Vegurinn er opinn sem stendur en aðeins talinn bílum búnum til vetraraksturs. Vegfarendum er ráðlagt að athuga færðina áður en lagt er af stað því aðstæður geta breyst. Leiðin verður mokuð í fyrramálið.
Kalt hefur verið í veðri í dag og talsverð úrkoma á Austurlandi. Vetrarfæri er víða, þannig er snjóþekja á Fjarðarheiði og hált á Fagradal. Í morgun gránaði alla leið niður í byggð á Héraði.
Áfram er spáð kulda og úrkomu á morgun.
Mynd úr safni.