Skoða þarf áhrif virkjunar á laxfiska í Hofsá

Skoða þarf möguleg áhrif af virkjun Þverár í Vopnafirði á uppeldisstöðvar fyrir laxfiska sem veiðast í Hofsár. Ger er ráð fyrir tveggja hektara uppistöðulóni og vatni verði miðlað um niðurgrafna pípu niður í stöðvarhús á láglendi.

Þetta kemur fram í tillögu að matsáætlun sem er í meðferð hjá Skipulagsstofnun. Fyrirtækið Þverárdalur ehf. er framkvæmdaaðilinn en að baki því er Arctic Hydro sem sérhæft hefur sig í minni virkjunarkostum.

Þverá er 19 km löng dragá með upptök í Smjörfjöllum en þaðan fellur hún um myndarlegt gljúfur niður í Hofsá í Vopnafirði. Gert er ráð fyrir að miðlunarlónið verði í 260 metra hæð og vatn úr því leitt 5,4 km leið í niðurgrafinni leiðslu að Stöðvarhúsi rétt við þjóðveginn. Með því fæst um 200 metra fallhæð.

Reist verður 80 metra breið og allt að 20 metra há stífla sem myndar miðlunarlón sem verður um tveir hektarar að stærð. Gert er ráð fyrir að helmingur þess verði í farvegi Þverár. Frumhönnun virkjunarinnar stendur yfir en vænst er að hún geti framleitt 3-6 MW af rafmagni.

Stöðvarhúsið verður 120 fermetrar að flatarmáli og átta metrar á hæð. Reynt verður að fella það sem best inn í landslagið. Út frá því verður 200 metra langur og 12 metra breiður frárennslisskurður. Rafmagnið verður tengt með 11 km löngum jarðstreng inn á dreifikerfi RARIK á Vopnafirði.

Í matsáætluninni kemur fram að engin friðlýst eða vernduð svæði séu á fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Þar megi hins vegar finna fimm vistgerðir með hátt verndargildi sem flokkast allar sem mýrlendi. Reiknað er með að rannsóknarsvæðið nái yfir 140 hektara og verða skoðuð áhrif aðstöðusköpunar, vegagerðar, efnistöku og mannvirkja á gróður, fugla, vatnalíf, jarðfræði og fornleifar. Stór hluti rannsókna verður unninn af Náttúrustofu Austurlands.

Þegar hefur verið aflað umsagna hjá nokkrum stofnunum. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er bent á að mögulegt sé að Þverá nýtist sem uppeldissvæði laxfiska sem gangi til sjávar og veiðist síðan í Hofsá. Það sé gert með að rannsaka botn árinnar. Síritandi vatnshitamæli var komið fyrir í Þverá strax í janúar sem hluta af þeim rannsóknum.

Frummatsskýrsla á að liggja fyrir í desember og hefur almenningur þá sex vikna frest til að bregðast við henni. Endanleg matsskýrsla ætti að verða send Skipulagsstofnun í mars.

Fyrirhugað stöðvarhússvæði. Mynd úr tillögu að matsáætlun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.