Skora á Múlaþing að leggja meiri rækt við Cittaslow á Djúpavogi

„Persónulega er ekki sammála þeim röddum að við hér höfum orðið eitthvað útundan í ferlinu,“ segir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs.

Heimastjórn bæjarins hefur skorað á sveitarstjórn Múlaþings að sýna í verki að vilji sé til að viðhalda og byggja upp Cittaslow stefnu á Djúpavogi og jafnvel í sveitarfélaginu öllu.

Djúpivogur landsþekkur fyrir að aðhyllast Cittaslow-stefninu en markmið hennar er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni.

Eiður segir ekki um áfellisdóm að ræða með áskoruninni heldur brýningu á því sem miklu máli skipti fyrir íbúa á Djúpavogi.

„Þetta snýst meira um að fá aðeins meiri fókus á þetta verkefni sem er okkur hjartfólgið hér. Ekki svo að skilja að ekki sé verið að vinna með þetta innan Múlaþings en það er dálítið á borðhliðinni og við viljum gjarnan fá þetta mál á besta stað upp á borðið. Nú er þetta á borði nokkurra aðila sem hafa í mörg önnur horn að líta þegar við sjáum fyrir okkur að sérstakur starfsmaður sé með þetta á sinni könnu og með góðan fókus á.“

Aðspurður um þær raddir sem hafa heyrst að Djúpivogur hafi orðið dálítið útundan við sameiningu sveitarfélaganna í Múlaþing fellst Eiður ekki á það.

„Það er ekki mín tilfinning. Ég vissulega ekki alveg hlutlaus enda starfsmaður heimastjórnarinnar en ég bý hér og starfa og það er vissulega verið að vinna marga góða hluti fyrir okkur og með okkur á svæðinu. Hafandi gengið í gegnum þrjú eða fjögur sameiningarferli gegnum tíðina þá veit ég að við fyrstu sýn virðist það kannski raunin utanfrá en frá mínum bæjardyrum er staðreyndin önnur og betri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.