Skrautleg umræða um Skógræktina: Þingmenn nánast grátbólgnir í faðmlögum af fögnuði

Umhverfisráðherra mælti í gær fyrir breytingu á ýmsum lögum sem snúa að skógrækt sem eru forsenda þess að Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt verði sameinuð í eina stofnun. Þingmenn fögnuðu frumvarpinu en umræðan var með skrautlegra móti. Farsími eins hringdi í ræðustól og annar rifjaði upp veisluhöld frá því Skógrækt ríkisins var flutt austur fyrir aldarfjórðung.


Gert er ráð fyrir að sameiningin taki formlega gildi þann 1. júlí en undirbúningur hefur staðið í nokkurn tíma. Þröstur Eysteinsson var skipaður nýr skógræktarstjóri um síðustu áramót og var í starfslýsingu hans gert ráð fyrir að hann leiddi sameininguna.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, mælti í síðustu viku fyrir bandormi lagabreytinga til að sameiningin taki formlega gildi. Stærstu breytingarnar eru á lögum um skógrækt og lögum um landshlutaverkefnin.

Þær fela meðal annars í sér að ekki verða lengur sérstakar stjórnir yfir landshlutaverkefnunum en lögð er áhersla á samráð við félög skógarbænda og landssamtök skógareigenda. Höfuðstöðvar Skógræktarinnar verða á Fljótsdalshéraði en starfsstöðvar í öllum landshlutum.

Í júní í fyrra var settur á hóp starfshópur undir forustu Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns frá Fáskrúðsfirði, um mögulega sameiningu. Niðurstaða starfshópsins var að sameining væri æskileg og skapaði skilyrði fyrir þróun skógræktar, eflingu atvinnulífs, rannsóknir og skilvirkari stjórnsýslu.

Sigrún skýrði einnig frá því að í ráðuneytinu væri hafin frekari vinna á lögum um skógrækt sem eru frá árinu 1955. Hún sagði líka að áhersla væri á samstarf við skógarbændur og það væri mikilvægt.

Aldrei séð framsóknarmenn jafn snögga að bjarga sér úr vandræðum

Fjörið í umræðunum byrjaði þegar formlegheitunum var lokið. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, kom upp til að lýsa ánægju sinni með frumvarpið því það skilaði betri nýtingu á fé og meiri faglegum slagkrafti.

Ekki vildi hins vegar betur til en svo að í miðri ræðu hringdi farsími hans. Þorsteini gekk illa að slökkva á símanum og henti honum að lokum til Húsvíkingsins Hjálmars Boga Hafliðasonar sem situr á þingi í fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi umhverfisráðherra, hóf ræðu sína á að mæra þá samvinnu. „Ég hef oft dáðst að snerpu Framsóknarflokksins við að krafsa sig út úr vandræðum en þó hef ég aldrei séð annan eins vaskleik og hér áðan þegar kom fram hversu gríðarlega góð samvinna er milli þingmanna flokksins.

Einn þeirra lenti í því óláni hér í ræðustól að það hringdi síminn hans og óðara þeytti hann símanum út í loftið og þar kom háttvirtur fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og greip hann á lofti. Þetta var lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað vera án og verð að segja það að ég hef sjaldan menn vera jafn snögga til þess að koma sér upp úr pyttinum og hér.“

Ógleymanleg veisla þegar Skógræktin var flutt austur

Sigrún Magnúsdóttir hrósaði Líneik fyrir vinnuna og sagði engin mótmælti hafa heyrst gegn sameiningunni, sem væri einstakt. Steingrímur J. Sigfússon greip þá fram í með orðunum: „Ég á eftir að halda mína ræðu.“

Steingrímur gerði hins vegar engar teljandi athugasemdir við frumvarpið. Sagði það vel undirbúið, að í aðalatriðum hefði tekist vel til og betur hefði tekist við með yfirfærslu réttinda starfsmanna en við margar aðrar stofnanabreytingar.

Ræðu sína hóf hann á gamansögu af Halldóri Laxness. Sá var með gest í heimsókn á Gljúfrasteini sem benti á græðlinga skáldsins sem varaði. „Ég vona að þetta verði orðin stór tré þegar þú kemur næst.“

Næst fagnaði hann því að höfuðstöðvarnar yrðu áfram á Héraði en þangað voru þær fluttar í tíð Steingríms sem landbúnaðarráðherra. „Þar var slegið upp ógleymanlegri veislu sem ég mun muna svo lengi sem einhver hugsun er eftir í mínum kolli, hvað það var mikil gleði þegar verið var að fagna því í Valaskjálf.“

Um þá sögu sagði Össur síðar að hafandi verið í „mörgum mannfögnuðum“ með Steingrími sem væri einn „mesti gleðimaður“ sem hann hefði verið með sæi hann „mikið eftir því að hafa ekki verið til þeirrar mannvirðingar á þeim tíma að geta tekið þátt í þessum fagnaði. Þar sem þeir voru saman Jón Loftsson og þingmaður trúi ég að hafi verið kátt á hjalla.“

Tilbúinn að styðja málið af öllum mínum vaskleik

Össur sagði umræðuna um frumvörpin hafa verið „hina notalegustu“ og þingmenn „fallið nánast grátbólgnir í faðmlög, einkum framsóknarmenn, yfir að hafa bjargað skógræktinni og glæsileik frækleik Líneikar.“

Össur tók undir hrós til hennar, sagðist reyndar hafa átt „afskaplega gott samstarf við háttvirtan þingmann um flest annað en skógrækt“ og óskaði „framsókn til hamingju með hana og öllum til hamingju með áfangann.“

Össur kveðst tilbúinn að styðja málið „af öllum þeim vaskleik“ sem honum væri búinn og vonaðist til að skógræktin myndi hjálpa til að efla byggð í landinu. „Ísland er lítils virði nema það sé í byggð. Hér talar eðalkrati og þeir hafa ekki alltaf verið þekktir fyrir að elska landbúnað út af lífinu en við erum til í að skjóta nýrri stoð undir hinar gisnu byggðir með skattpeningum.“

Össur taldi sameininguna gæfuspor fyrir landshlutaverkefnin sem verið hefðu hálf munaðarlaus og sagðist þekkja það sem ráðherra að „smákóngasjónarmið í héraði“ hefðu oft ráðið miklu.

Tekur bara 100 ár að rækta skóg

Hann, líkt og fleiri ræðumenn, viðurkenndi að skógræktin væri að sanna sig. „Ég taldi á mínum sokkabandsárum í stjórnmálum að ekki væri eftir miklu að slægjast. Nú eru menn hins vegar byrjaðir að skapa beinhörð verðmæti úr því sem menn töldu að aldrei gæti orðið að nokkurri atvinnugrein. Það hefur allt gengið eftir sem frumkvöðlarnir í skógrækt sögðu.“

Þorsteinn Sæmundsson rifjaði upp að hann hefði kynnst annarri tímamælingu þegar hann hóf að ræða við skógræktarmenn. „Þeir sögðu að það væri ekkert erfitt að rækta skóg á Íslandi. Það tæki ekki nema 100 ár.“

Össur lauk ræðu sinni með að vísa til Jónasar frá Hriflu og uppruna Framsóknarflokksins, eins og hann sagðist ljúka öllum sínum ræðum um flokkinn „þótt þessi sé um skógrækt líka“ og uppskar hlátur úr þingsal.

Umhverfisráðherra lauk umræðunni með að taka undir að árangur væri farinn að sjást af skógræktinni. „Ég ferðaðist um Austfirði í fyrra og sá hverju Héraðsskógaverkefnið hefur komið til leiða. Árangurinn blasir við hvar sem er.“

Hún benti á möguleika á ræktun skógar samhliða öðrum búskap, svo sem sauðfjárbúskap og að huga þurfti að skipulagi við gróðursetningu. „Ég er ein af þeim sem gróðursetti sjálf fyrir ágætis útsýni!“

Sjá má símakastið eftir um fimm mínútur hér að neðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.