„Skýr fyrirmæli virka vel á makann líka“

„Foreldrar þurfa ávallt að setja reglurnar en við leggjum áherslu á að gera það með jákvæðum og uppbyggilegum hætti,“ segja þær Hlín Stefánsdóttir og Dagbjört Kristinsdóttir, kennarar á foreldrafærnisnámskeiði sem hefst á Egilsstöðum á morgun.


Um er að ræða átta vikna námskeið í foreldrafærni (PMTO) og er það ætlað foreldrum barna á aldrinum 4-12 ára. Fyrri námskeið hafa gefist vel en markmið þeirra er að veita ákveðin verkfæri í uppeldinu.

Námskeiðið er samstarfsverkefni Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og fræðslusviðs sveitarfélagsins. Hlín er félagsráðgjafi og PMTO-meðferðaraðili og Dagbjört er deildarstjóri og PMTO-ráðgjafi.

Veita foreldrum ákveðin verkfæri
„Aðferðin snýst fyrst og fremst um að veita foreldrum ákveðin verkfæri þegar kemur að uppeldi barna sinna. Í allri vinnu þurfum við verkfæri, hvort sem við erum að elda mat eða byggja hús, það sama gildir um uppeldið. Á námskeiðinu erum við því að fara yfir þau verkfæri sem nýtast okkur í uppeldinu, svo sem skýr fyrirmæli, hvatningu, lausnaleit og fleira. Við tölum stundum um að það fylgi engar leiðbeiningar þegar börnin okkar koma í heiminn og því ekki sjálfsagt að við vitum alltaf hvernig bregðast skuli við þeim. Það er þó mikilvægt að muna að foreldrar eru alltaf mikilvægustu kennarar barna sinna og oft á tíðum fylgir því mikil sjálfsskoðun foreldra að tileinka sér nýjar uppeldisaðferðir, sú sjálfsskoðun á þó alltaf að vera með áherslu á eigin styrkleika,“ segja þær Hlín og Dagbjört.

Áhersla lögð á mætingu beggja foreldra
Þær stöllur segja að námskeiðið sé hugsað fyrir alla foreldra barna á aldrinum 4-12 ára en hentar sérstaklega vel fyrir foreldra þeirra barna sem sýna erfiða hegðun. „Aðferðin nýtist að sjálfsögðu líka fyrir yngri og eldri börn en þá nýtir maður ekki alla þá þætti sem farið er yfir á námskeiðinu þar sem taka þarf tillit til aldurs og þroska hvers barns fyrir sig. Við leggjum áherslu á að báðir foreldrar komi á námskeiðið – sé það einhver möguleiki – þar sem samstaða foreldra skiptir miklu máli í uppeldinu. Við sendum foreldra ávallt heim með heimaverkefni svo við getum leiðbeint með það sem upp kemur þegar verkfærin eru prófuð.“

Fjölbreyttar kennsluaðferðir
Hlín og Dagbjört hafa staðið fyrir sambærilegum námskeiðum áður. Hver er mesti ávinningurinn að mati þeirra sem þau hafa sótt? „Við höfum heyrt að foreldrar séu ánægðir með námskeiðið og margir eru hissa á því hve skemmtilegt það er og upplifa það jafnvel sem smá hvíld frá daglegu amstri heimilisins. Við leggjum áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir frekar en þurra fyrirlestra. Margir hafa talað um meiri ró á heimilinu eftir námskeiðið og einhverjir hafa verið ánægðir með hvað ákveðnir þættir, til dæmis skýr fyrirmæli, virki vel á makann líka.“

„Foreldrar þurfa ávallt að setja reglurnar“
Hvað er það sem þær Hlín og Dagbjört telja erfiðast í uppeldishlutverkinu í dag? „Það sem við teljum erfiðast í uppeldinu í dag er fyrst og fremst tímaskortur. Foreldrar eru í vinnu og börn í skóla og tómstundum, svo þarf að halda heimilinu hreinu og huga að líkama og sál. Oft á tíðum er hreinlega mjög erfitt að halda öllum þessum boltum á lofti í einu. Mörg börn eru þó mjög ákveðin, sem er jákvætt, en það þarf hins vegar að aðstoða foreldra við að halda stjórninni á heimilinu. Við vonum því að gleðin yfir PMTO sé ekki einungis bundin við námskeiðið heldur haldi áfram við notkun verkfæranna á heimilinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.