Skýr krafa um alvöru samráð í fræðslumálum
Formaður Kennarasambands Íslands segir hljóðið enn þungt í kennurum í Fjarðabyggð vegna áforma um breytingar á skólastofnunum sveitarfélagsins. Forsvarsmenn kennara á landsvísu hafa verið í Fjarðabyggð í vikunni til að funda með bæði sínum félagsmönnum og stjórnendum sveitarfélagsins. Þeir segja mikilvægt að víðtækt samráð verði haft við skólana í ferlinu.Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti í lok febrúar tillögur um sameiningu skólastofnana Fjarðabyggðar eftir skólastigum. Kennarasambandið óskaði álits mennta- og barnamálaráðuneytisins á þeim.
Ráðuneytið úrskurðaði að ekki hefði verið viðhaft það samráð sem hafa ætti við skólasamfélagið samkvæmt lögum við umfangsmiklar breytingar og lagði því fyrir bæjarstjórn að taka málið aftur til nýrrar meðferðar.
Í þessum mánuði hefur verið óskað athugasemda við breytingarnar og skólastjórar kallaðir til fundar. Í kjölfar þeirra samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar á þriðjudag nýtt upplegg að breytingunum. Áfram er gert ráð fyrir að tónlistarskólarnir verði sameinaðir í haust og breytingum á leikskólum er frestað til áramóta. Í grunnskólunum breytist ekkert fyrir næsta skólaár en myndaður verður rýnihópur sem á að skila af sér lokatillögum í febrúar á næsta ári.
Enn þungt hljóð í kennurum
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarafélags Íslands, Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara og Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í grunnskólum, hafa í vikunni verið á ferðinni í Fjarðabyggð. Þau hafa fundað með starfsfólki skóla og stjórnendum sveitarfélagsins. Forsvarsfólk félaga leikakólakennara og stjórnenda er væntanlegt eftir tvær vikur.
Seinni partinn í gær var haldinn fjölmennur fundur á Eskifirði með kennurum úr öllum grunnskólum Fjarðabyggðar. Magnús segir tilgang fundarins hafa verið að formenn kennarafélaganna gætu hitt kennara alla í einu og skýrt þeim frá niðurstöðum þeirra funda sem þeir höfðu þá átt, í skólum í hverju byggðarlaga Fjarðabyggðar fyrir sig og síðan með bæjarstjóra.
„Fundurinn sýndi kraftinn sem býr í fólkinu á svæðinu. Það er skýr krafa um að það verði öflugt samráð í þessu verkefni sem er að rýna í skólakerfin. Hljóðið í fólkinu er þungt því það telur að samráðið hafi ekki verið nægjanlegt til þessa. Við höfum komið því á framfæri á fundum okkar með bæjaryfirvöldum,“ segir Magnús.
Fyrirheit um alvöru samráð
Fereykið fundaði með bæjarstjóra í gær auk þess sem Magnús hitti fulltrúa úr bæjarráði í morgun. Hann segir fyrirheitin vera þau að vel verði staðið að samráðinu en það verði að sýna í verki.
„Við höfum lagt á það áherslu við bæjaryfirvöld að það verði alvöru samráð, bæði við kennara og skólasamfélagið. Eftir samtöl okkar við bæjaryfirvöld þá höfum við væntingar um að það sjónarmið sé uppi. En orð eru eitt, aðgerðir annað en við hlökkum til að sjá hvernig málum vindur fram.“
Magnús segist ekki hafa sérstakar skoðanir á samþykkt bæjarráðs frá því á þriðjudag, aðeins að vandað verði til verka við breytingarnar. „Það er mikilvægt að þetta verði alvöru samráð þar sem skólarnir verði leiðandi í að rýna sín verkefni. Krafan er skýr um alvöru samráð í gegnum hvern skóla fyrir sig. Hér er mjög öflugt fólk með brennandi áhuga á starfi sínu.“
Mynd: Kennarasamband Íslands