Slæm fjallskil áhyggjuefni

Dýraeftirlitsmaður segir það áhyggjuefni að grípa þurfi til aðgerða til að ná fjölda fjár af fjöllum í janúar. Matvælastofnun fylgist með gangi mála en hefur takmarkaðar heimildir til að grípa inn í.

Austurfrétt og RÚV hafa undanfarna daga greint frá því að smalar á Austurlandi hafi undanfarnar vikur smalað hundruð fjár niður af fjöllum eftir að fjallskilum var lokið.

Mestu hefur verið smalað í Fljótsdal, hátt í 200 kindum, vel yfir 100 í Loðmundarfirði og um 100 í heiðunum í kringum Vopnafjörð.

Aðvörun á Seyðisfirði

Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður í austurumdæmi, staðfesti í samtali við Austurfrétt að búið væri að setja af stað ferli á vegum stofnunarinnar út af kindunum í Loðmundarfirði. Eftir því sem næst verður komist er drjúgur hluti þeirra úr Seyðisfirði. Þar hefur stofnunin einnig gert athugasemdir við útigang fjár en vitað er um 20 fjár sem gengur úti í hlíðum Bjólfsins.

„Það var farin eftirlitsferð í Seyðisfjörð um miðjan janúar og við gáfum fjáreiganda frest til mánaðarmóta til að ná fé sínu. Síðan hefur ekki viðrað sérstaklega svo ég á ekki von á að mikið hafi verið gert,“ sagði Þorsteinn þegar Austurfrétt ræddi við hann fyrir helgi.

Nær öll ábyrgðin á sveitarfélögunum

Þorsteinn segist einnig hafa verið í sambandi við fjallskilastjóra í Fljótsdal. Þar hyggst fjallskilanefndin gera betur grein fyrir málunum þegar búið verður að ná öllu því fé sem vitað er af á útigangi.

Þorsteinn segir hins vegar að það hafi komið honum á óvart hve takmarkaðar heimildir MAST hefur til afskipta. „Sveitarfélögin bera nær alla ábyrgðina, hvort sem starfsmönnum þeirra eða kjörnum fulltrúum líkar betur eða verr. Þessi hefðbundnu fjallskil hvíla nær öll á þeim. Þegar ég fór að lesa mér til kom mér á óvart hversu lítil ábyrgð fjáreigandans er.“

Hann bendir hins vegar að í nýjustu útgáfu laga um velferð dýra sé ákvæði um að útigangur dýra þar sem ekki er hægt að hafa eftirlit með þeim sé bannaður. Við slíkar kringumstæður megi hugsanlega ná dýrunum á kostnað eigenda.

„Það er helst þetta ákvæði sem við getum notað. Það vantar hins vegar einhverja vogarstöng sem hægt sé að taka vel á þessum málum,“ segir Þorsteinn en bætir við að þar sem féð sé í svelti eða sannarlega illa haldið teljist málin dýraverndarmál sem þar með komi til kasta MAST.

Fjallskil víðar vandamál

Smalar sem Austurfrétt hefur rætt við benda einnig á að fjáreigendur hafi illa sinnt smalamennskum í haust. Það virðist jafnvel vera að færast í vöxt.

„Ég tek undir að þetta sé áhyggjuefni. Þessi dæmi eru því miður ekki einu staðirnir, við höfum einnig heyrt af slæmum fjallskilum á Hornafjarðarsvæðinu og víðar í austurumdæminu. Það skiptir máli að skoða vel hvernig lagaramminn er.“

Engan vegin einu staðirnir, slæm fjallskil á Hornafjarðarsvæðinu og víðar sem heyrir undir austurumdæmi, vissulega áhyggjuefni, gera vel í að skoða hvernig lagaramminn er,

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.