Síminn eflir fjarskipta-samband á Seyðisfirði
Síminn hefur sett upp nýja 3G stöð á Seyðisfirði sem á að bæta verulega gagnasamband í farsíma í bænum.
Í tilkynningu frá Símanum segir að á Seyðisfirði sé ferðaþjónusta stór þáttur í atvinnustarfssemi og í gegnum bæinn fari tugþúsundir ferðamanna árlega, meðal annars vegna Norrænu og skemmtiferðaskipa sem leggja við höfnina. Því sé mikilvægt að gagna- og farsímasamband þar sé þétt.„3G stöð Símans á Bjólfi við Seyðisfjörð var sett upp árið 2008 með 3G langdrægum sendi sem einkum er ætlað að veita sjófarendum þjónustu. Við stöðina var bætt hefðbundnum 3G sendi sem snýr í áttina að byggðinni í Seyðisfirði. Þetta fyrirkomulag hefur náð til hluta bæjarins en nýi sendirinn, sem settur var upp í aðstöðu RÚV á svæðinu, veitir 3G samband alls staðar í bænum.
3G net Símans nær nú til um 95% heimila í landinu og vinnur Síminn við uppfærslu þess í 21 Mb/s en sá hraði er þegar í boði á ákveðnum hluta höfuðborgarinnar. Möguleikarnir sem 3G farsímaþjónustan býður upp á er margföld viðbót við kostina í hefðbundnu farsímaneti. Bæði þjónar netið sem almenn farsímaþjónusta ásamt því að vera öflug aðgangsleið inn á netið, með farsímanum sem og í gegnum fartölvu með 3G Netlykli.“