„Vonandi sönnun þess að við erum á réttri braut“

„Þetta skiptir okkur miklu máli, það er mikil hvatning fólgin í þessum viðurkenningum auk þess að vera ákveðinn gæðastimpill og vonandi sönnun þess að við erum á réttri braut. Við munum halda áfram og vekjum vonandi í leiðinni enn frakari athygli á áfangastaðnum Austurlandi,“ segir Arna Björg Bjarnadóttir, annar eigenda Óbyggðaseturs Íslands um þær viðurkenningar sem safnið hefur hlotið að undanförnu.


Óbyggðasetur Íslands hlaut nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2016, en samtökin hafa afhent verðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar frá árinu 2004. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar og er þeim ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Óbyggðasetrinu verðlaunin við fjölmenna og hátíðlega athöfn á KEX Hostel síðastliðinn föstudag. Dómnefndina skipuðu María Guðmundsdóttir, formaður, Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursions og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Segull fyrir áfangastaðinn Austurland

Í umsögn dómnefndar um Óbyggðasetur Íslands segir að sterk upplifun gegni lykilhlutverki í ferðaþjónustu samtímans og æ ríkari áhersla sé lögð á vöruþróun og nýsköpun sem miðar að því að skapa umhverfi sem stuðlar að innihaldsríkri upplifun ferðamannsins, eitthvað sem gerir ferðalagið merkingarbært og eftirminnilegt. Lykilatriðið sé að skapa hughrif, skapa stemningu og andrúmsloft sem fangar gestinn. Slíkt sé ekki hrist fram úr erminni heldur byggi upplifunarhönnun á vel ígrundaðri vinnu sem endurspeglist á öllum stigum þjónustunnar.

Ennfremur segir að Óbyggðasetrið sé nýsköpun sem byggir á fagmennsku og markvissri vöruþróun sem eigi sér skýrar rætur í menningu og náttúru sveitabýlis í jaðri hálendisins. Með því hafi verið skapaður segull sem án efa á eftir að hafa mikið gildi fyrir áfangastaðinn Austurland.

Tvær viðurkenningar á tveimur vikum

Það eru hjónin Arna Björg Bjarnadóttir og Steingrímur Karlsson sem eiga og reka Óbyggðasetrið. „Síðustu tvær vikur hafa verið sérstaklega ánægjulegar, en við fengum einnig viðurkenningu frá Framfarafélagi Fljófsdalshéraðs sem nefnist „Frumkvæði til framfara 2016“ – fyrir dugnað, kjark og hugmyndaauðga,“ segir Arna Björg í samtali við Austurfrétt.

Vinna að því að auka vetrarferðamennsku

Óbyggðasetrið er opið fyrir hópa í allan vetur, þar sem hægt er að fara á sýninguna, í allskyns afþreyingu, kvöldverð og gistingu. Arna Björg segir að framundan sé stefnumótunarvinna og fjárhagsáætlanagerð fyrir næsta ár.

„Við erum líka farin að huga að mannaráðningum og erum að vinna að því að leiða heita lind úr fjallinu inn á varmadælu til þess að setja upp heita potta. Einnig ætlum við að bæta við fjallahjólaleigu, hanna enn fleiri ferðir, bæði styttri og lengri. Við erum að vinna að markaðsáætlun sem snýr sérstaklega að því hvernig hægt sé að auka umsvifin yfir vetrartímann sem og að beina hópum og fyrirtækjum til okkar.“

Upphaflega hugmyndin smærri í sniðum

Sáu þau Arna Björg og Steingrímur allt þetta fyrir sér í upphafi? „Nei, alls ekki, upphaflega myndin var miklu smærri í sniðum en vatt rækilega upp á sig. Hugmyndin var þó orðin skýr og vel mótuð fyrir svona þremur árum og síðan höfum við unnið markvisst af henni sem er hágæða ferðaþjónusta og heildarupplifun fyrir ferðamanninn.“

Ljósmynd af heimasíðu SAF: Davíð Torfi Ólafsson, stjórnarmaður í SAF, María Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og hjónin Arna Björg Bjarnadóttir og Steingrímur Karlsson eigendur Óbyggðaseturs Íslands. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.