Sparisjóður Norðfjarðar auglýstur til sölu
Fyrirtækjaráðgjöf H.F. Verðbréfa hefur auglýst allt stofnfé Sparisjóðs Norðfjarðar til sölu. Áhugasamir fjárfestar hafa frest til loka septembermánaðar til að skila inn tilboðum.
Í auglýsingu H.F. Verðbréfa segir að rekstur sparisjóðsins hafi gengið vel þau 90 ár sem hann hafi verið til að undanskildu fjárhagslegu tjóni sem hann varð fyrir þegar íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008.
Síðan hafi fjárhagur sjóðsins verið endurskipulagður með aðkomu ríkis, sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja og einstaklinga þar. Eftir það er stofnfé sjóðsins 625,8 milljónir króna og stofnfjáreigendur 86. Ríkið á 49,5% af stofnfénu sem er í höndum Bankasýslu ríkisins. Heildareignir sparisjóðsins voru í lok árs 2010 um 5.223 m.kr. og eiginfjárhlutfall hans var 20,3%. Starfsmenn eru tíu.
Áhugasamir fjárfestar hafa frest til hádegis fimmtudaginn 29. september til að skila inn óskuldbindandi tilboðum. Þeir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði um fjárhagslegan styrk og hæfi til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Þeim er frjálst að bjóða í allan eignarhlutinn eða hluta. Seljandi áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum.