Stækka svæði undir íbúðabyggð á Eskifirði en færa tjaldsvæðið á móti

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti fyrr í vikunni skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðal- og deiliskipulagi í Dal á Eskifirði. Þar um að ræða færslu tjaldsvæðis Eskfirðinga en jafnframt stækkar skipulag undir íbúðabyggð í dalnum.

Svæðið sem um er að ræða má sjá á meðfylgjandi mynd. Hingað til hefur aðalskipulag Fjarðabyggðar miðast við að ofan Dalbrautar rísi fjölbýlishúsabyggð en á sléttu graslendinu fyrir neðan verði áfram staðsett afþreyingar- og tjaldsvæði bæjarins.

Breytingar nú snúa að því að víxla þessu með breyttu skipulagi. Fjölbýlishúsabyggð færist niður undir Dalbrautina en nýtt tjaldsvæði verði opnað fyrir ofan veg.

Meginrök þessa þau að með þeim hætti myndist mun betri samfella í byggðinni, einfaldara sé að byggja á flatlendinu en í hallanum fyrir ofan veg og síðast en ekki síst stækkar deiliskipulagssvæði fyrir íbúðabyggð töluvert við þessa breytingu. Breytingin hefur jafnframt í för með sér að íbúðabyggð verði ekki í hættu vegna ofanflóða norðan megin Dalbrautarinnar en hætta á slíku þar er talin vera einhver.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar