Starf framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna og yfirhafnarvarðar sameinað í eitt
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti á fundi sínum í gær breytingar á skipulagi sveitarfélagsins. Til verður nýtt svið umhverfis- og skipulagsmála og ráðinn verður mannauðsstjóri. Þegar hefur verið ráðist í breytingar á yfirstjórn hafnarmála.Til stendur að sameina starf framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna og yfirhafnarvarðar í eitt sem heyri undir framkvæmdasvið. Bæjarstjóri verði hafnarstjóri með ábyrgð á starfsemi hafnarinnar samkvæmt hafnalögum en daglegur rekstur verði í umsjón framkvæmdasviðs.
Tillögurnar hafa verið unnar af stjórnkerfisnefnd sveitarfélagsins og voru samþykktar af henni á þriðjudag, hafnarstjórn á miðvikudag og í bæjarstjórn í gær. Tillögurnar voru samþykktar með öllum atkvæðum í hafnarstjórn og bæjarstjórn.
Í samtali við Austurfrétt staðfesti Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, að framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna hefði þegar látið af störfum en yfirhafnarvörður starfi þar til hann fari á eftirlaun síðar á árinu.
Starf þeirra verður sameinað í eitt. Verið er að klára starfslýsingu fyrir það og finna endanlegt heiti á það áður en það verður auglýst. Karl Óttar bendir á að á ákvörðunin komi í kjölfar breytinga sem farið hafi af stað á síðasta kjörtímabili þar sem ábyrgð hafnarstjóra á verklegum framkvæmdum hafi verið færð til framkvæmdasviðs.
Leyfismál og eftirlit framkvæmda- og umhverfismála verður samþætt skipulagsmálum með tilurð umhverfis- og skipulagssviðs sem verður undir stjórn bygginga- og skipulagsfulltrúa. Í tilkynningu sveitarfélagsins segir að með því verðu lögð aukin áhersla á umhverfismál í starfseminni.
Þá verður til nýtt starf mannauðsstjóra sem heyra mun undir bæjarritara. Mannauðsstjóranum er ætlað að fylgja eftir áherslum sem lúta að vinnuvernd og sálfélagslegum þáttum á vinnustöðum. Með sé undirstrikuð áhersla á mikilvægi mannauðsmála en starfsmenn Fjarðabyggðar og undirstofnana eru liðlega 500 talsins. Þá munu persónuverndarmál falla undir starfið.