Stefán Bogi tekur slaginn í Austrakjallaranum
Stefán Bogi Sveinsson, framkvæmdastjóri UÍA, tilkynnti í morgun um framboð sitt í prófkjöri Framsóknarflokksins á Fljótsdalshéraði fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Þetta tilkynnti hann félögum sínum á reglulegum laugardagsfundi Framsóknarmanna í Austrakjallaranum á Egilsstöðum. Stefán sækist eftir fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins.
"Það er komin veruleg valdþreyta hjá meirihlutanum og því miður hefur það orðið of áberandi að embættismenn sveitarfélagsins ráði í raun öllu innan þess." segir Stefán Bogi meðal annars í bloggfærslu sinni um ákvörðun sína. Hann telur megi sækja fram á veginn í atvinnumálum og að sóknarfæri séu fyrir hendi þrátt fyrir að núverandi meirihluti skili ekki góðu búi.
Stefán er lögfræðingur að mennt og hefur starfað í ungliðahreyfingu Framsóknarflokksins í mörg herrans ár. Meðal annars átt sæti í stjórn ungra Framsóknarmanna. Að undanförnu hefur Stefán notið hvað mestrar hylli í spurningaliði Fljótsdalshéraðs í sjónvarpsþættinum Útsvari. Talið hefur verið tímaspursmál meðal áhugamanna um bæjarmál hvenær Stefán tilkynnti um ráðahag sinn.