Stefna á að senda fjölmennara lið í næstu ferð Norrænu

Innan við klukkutíma tók að skima um 200 farþega Norrænu eftir að ferjan var komin til hafnar á Seyðisfirði í gærmorgun. Ekki urðu frekari tafir á ferðum ferjunnar þess vegna þótt ekki væri hægt að skima sama fjölda og fyrirhugað var um borð í henni vegna athugasemda frá persónuverndaryfirvöldum í Færeyjum. Lausn á stöðunni var meðal annars rædd á fundi utanríkisráðherra landanna í vikunni.

Sex manna lið frá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) var sent til Danmerkur í byrjun vikunnar og fór með ferjunni frá Hirtshals á þriðjudag. Tilgangur þess var að skima fyrir Covid-19 veirunni meðal þeirra farþega sem ætluðu í land á Seyðisfirði á meðan siglingunni stæði þar sem ekki var talinn tími til að klára það þá 2,5 tíma sem ferjar stoppar í höfninni þar á sumaráætlun.

Það tókst þó ekki eins og til var ætlast. Eins og Austurfrétt greindi frá í gær lagðist persónuvernd í Færeyjum, Dátueftirlitið, gegn því að skimað yrði fyrr en komið yrði inn á íslenskt yfirráðasvæði, svokallað aðlægt belti sem er 24 sjómílur frá landi.

Í samtali við færeyska vefmiðilinn Hvat.fo sagðist Rúni Vang Poulsen, forstjóri Smyril-Line, útgerðar Norrænu, eiga bágt með að skilja afstöðu og afskipti Dátueftirlitsins. Bæði Austurfrétt og Hvat.fo óskuðu í gær eftir afriti og upplýsingum Dátueftirlitsins en þeim beiðnum hefur ekki verið svarað.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær lá afstaða Dátueftirlitsins fyrir um það leyti sem Norræna fór frá Hirtshals á þriðjudag. Athygli hefur vakið að það skyldi ekki vera frágengið þótt í tæpan mánuð hafi áætlanir íslenskra yfirvalda um að skima um borð í ferjunni legið fyrir.

Töldu íslensk lög ekki gilda á siglingunni

Í svari Róberts Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar Íslands, við fyrirspurnum Austurfréttar um aðkomu íslenska ríkisins að málinu og samskipti við yfirvöld í Færeyjum kemur fram að þegar ákveðið hafi verið að skima um borð í Norrænu hafi varið haft samband við færeysk stjórnvöld, enda ferjan skráð þar.

Því hafi verið svarað að til að skimunin samræmdist færeyskum lögum þyrfti læknir með danskt lækningaleyfi að vera ábyrgur fyrir sýnatökunni og fá fyrir henni leyfi frá Dátueftirlitinu. Eftir samtal landlækna ríkjanna í byrjun vikunnar hafi verið ljóst að fyrra atriðið væri auðleysanlegt.

Á símafundum með starfsmönnum Dátueftirlitsins hafi orðið ljóst að stofnunin féllist ekki á það sjónarmið Íslendinga að farið yrði eftir íslenskum lögum undir eftirliti Persónuverndar þar sem vinnsla upplýsinganna yrði fyrst og fremst á Íslandi. Til þess þyrfti yrði að sækja um sérstakt leyfi í Þórshöfn og það yrði ekki afgreitt á skömmum tíma.

Málið á borði ráðherra

Í svari við spurningu um aðkomu íslenskra stjórnvalda að málinu kemur fram að utanríkisráðuneytið og sendiherra Íslands í Færeyjum hafi tekið þátt í að vinna að lausn málsins. Þannig hafi það meðal annars verið rætt á fundi utanríkisráðherra landanna í vikunni. Þeir sammæltust um að á meðan leyfi persónuverndar Færeyja lægi ekki fyrir yrði miðað við að íslensk lögsaga næði til ferjunnar þegar hún yrði komin inn á aðlæga beltið og þá gæti skimunin hafist.

Fulltrúi forsætisráðherra leiðir samhæfingarteymi sem vinnur með sóttvarnalækni og almannavarnadeild lögreglunnar að framkvæmd skimunar á komufarþegum til landsins og kom að úrlausninni ásamt starfsmönnum fyrrnefndra tveggja embætta og aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi. Forsætisráðherra var upplýst um stöðuna á miðvikudag en kom ekki að málum að öðru leyti.

Allt gekk upp á Seyðisfirði

Norræna kemur inn á aðlæga beltið um tveimur tímum áður en hún kemur til hafnar á Seyðisfirði. Í gær tókst tveimur sýnatökupörum frá HSA að taka sýni úr um 200 farþegum ferjunnar á meðan þeirri siglingu stóð.

Þeim til aðstoðar voru send fimm sýnatökupör, alls tíu manns, frá Íslenskri erfðagreiningu. Þannig tókst að taka sýni úr um 200 farþegum sem eftir voru á aðeins 45 mínútum eftir að skipið lagðist að bryggju. Það stoppaði aðeins í um 100 mínútur á Seyðisfirði og urðu því ekki frekari tafir á ferðum þess vegna sýnatökunnar, en það kom um 2,5 tímum síðar þangað en áætlað var vegna vélarbilunar í upphafi ferðarinnar.

Í svari upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar kemur fram að bæði Smyril-Line og skipstjóri Norrænu hafi verið mjög áfram um að fundin yrði lausn á að skimun hæfist áður en komið væri til Seyðisfjarðar þannig að áætlunin raskaðist ekki. Það gekk eftir.

„Það gekk allt upp sem átti að gera,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi. Hann segir mikla hjálp hafa verið í sýnatökuliði HSA, sem taldi sex manns, um borð. Það hjálpaði farþegum að skrá sig inn í rafrænt upplýsingakerfi sem flýtti töluvert fyrir skimunni eftir að komið var til Seyðisfjarðar.

Fjölmennara lið í næstu ferð

Í svari upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar segir að nú sé skoðað hvort senda eigi fjölmennara lið til Þórshafnar í Færeyjum til að flýta fyrir skimunni á leiðinni. Reynslan af ferð vikunnar sýni að ráðrúm sé til ljúka skimunni á þeim tíma sem sé frá því að ferjan komi inn á aðlæga beltið og þar til hún komi til Seyðisfjarðar. Ekki er fyrirhugað að sækja um sérstakt leyfi Dátueftirlitsins til að hefja skimun fyrr.

Fyrir tveimur vikum átti sýnatökulið að fara um borð í Þórshöfn en þoka þar kom í veg fyrir að flugvél með liðnu gæti lent. Í svarinu kemur fram að við slíkar aðstæður yrði skimað við komuna til Seyðisfjarðar. Gott samstarf hafi verið við Smyril-Line og allir sem að málinu komi sammála um að finna góða lausn til frambúðar með hagsmuni farþega og sóttvarnasjónarmið í fyrirrúmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar