Óttast að innbúið sé illa farið eftir rakaskemmdir - Myndir

Nýuppgert íbúðarhús á Stöðvarfirði er illa farið eftir ofsaveðrið í gær. Leyfi fékkst frá tryggingafélagi í dag til að byrja að rífa út úr því.

Þakplöturnar fóru af húsinu við Skólabraut 12 aðfaranótt fimmtudags sem og klæðning. Þar með var húsið orðið berskjaldað fyrir veðurhamnum. Á það reyndi þegar fór að rigna hraustlega í gærmorgunn.

Ingibjörg Ómarsdóttir býr þar með manni sínum, Guðgeiri Fannari Margeirssyni og fjögurra ára gömlu barni. Hún segir húsið hafa skolfið þegar þakið fór af.

Guðgeir er í slökkviliði staðarins sem sinnti fokverkefnum víða um bæinn. Því stóð hún í ströngu í gærdag þegar leka tók úr loftinu. „Ég stóð hérna frá 12-18 ásamt vinkonu minni við að ausa,“ segir hún.

Hún lýsir því hvernig stórar fötur sem þær voru með fylltust á um hálftíma fresti. Ein sú stærsta stóð undir háfnum í eldhúsinu. Úr honum rann vatnið í stríðum straumum.

Ingibjörg og Guðgeir hafa verið að gera upp húsið. Í janúar unnu þau í stofunni. Plata féll ofan úr loftinu þar í gær.

Þau töluðu í dag við tryggingafélag sitt. Fulltrúar þess koma ekki strax en gáfu leyfi til að henda út því sem er sannarlega ónýtt í gegnum myndsamtal. Í kjölfarið var hafist handa við að rífa niður úr loftinu og parket af stofunni.

Ingibjörg segist óttast um innbú þeirra. Afar rakt hafi verið í íbúðinni í gær þar sem ekki var hægt að opna neina glugga og fúkkalykt jafnvel komin í muni sem voru ofan í skúffum.

Fjölskyldan er flutt úr húsinu í bili og fengið inni í öðru sem aðeins er notað hluta úr ári.

Stodvarfjordur Ingibjorg Omars Hus Feb25 0002 Web
Stodvarfjordur Ingibjorg Omars Hus Feb25 0007 Web
Stodvarfjordur Ingibjorg Omars Hus Feb25 0010 Web
Stodvarfjordur Ingibjorg Omars Hus Feb25 0012 Web
Stodvarfjordur Ingibjorg Omars Hus Feb25 0014 Web
Stodvarfjordur Tiltekt 20250207 0054 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar