![](/images/stories/news/2025/jarthrudur_arnadottir_prestur_kirkjan.jpg)
Jarþrúður sett inn í embætti í Egilsstaðaprestakalli
Séra Jarþrúður Árnadóttir verður á sunnudag sett í embætti prests í Egilsstaðaprestakalli. Áfram er unnið að lausnum fyrir önnur prestsembætti á Austurlandi sem eru laus.Jarþrúður er fædd árið 1988 og vígðist til Langanes- og Skinnastaðaprestakalls árið 2019 með áherslu á Þórshöfn. Hún hefur undanfarin misseri einnig leyst af í Hofsprestakalli á Vopnafirði. Hún var í haust eini umsækjandinn um lausa stöðu í Egilsstaðaprestakalli.
Þar starfa tveir aðrir prestar og þjóna öllum sóknum í sameiningum. Þeir hafa þó sínar áherslur og verður Jarþrúður með sérstakar skyldur við Ássókn. Hún verður sett í embætti í Áskirkju klukkan 14:00 á sunnudag.
Tvö önnur embætti á Austurlandi losnuðu í fyrra, annars vegar á Vopnafirði, hins vegar í Austfjarðaprestakalli með áherslu á Neskaupstað. Þau voru auglýst en engar umsóknir bárust.
Sr. Gunnlaugur Stefánsson þjónaði á Vopnafirði um jólin og upp úr áramótum kom þangað séra Örn Bárður Jónsson. Hann starfaði lengst af í Neskirkju. Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu verður í vor ákveðið hvort auglýst verði aftur eða haldið áfram með tímabundna afleysingu.
Þar fengust einnig þau svör að í Austfjarðaprestakalli standi til að auglýsa aftur. Þangað til verði söfnuðurinn styrktur með öðrum hætti.
Mynd: Biskupsstofa