Stolnum bíl skilað aftur á sama stað

Lögreglan á Austurlandi hefur ekki enn upplýsingar um ferðir bíls sem hvarf af bílastæðinu við flugvöllinn á Egilsstöðum á sunnudag. Ökumenn eru minntir á að fara með gát nú þegar hálka er tekin að myndast á vegum.


Lögreglan auglýsti á sunnudagskvöld eftir jeppabifreið sem horfið hafði af bílastæðinu við flugvöllinn. Hann fannst þar morguninn eftir.

„Við erum ánægðir með að hann hafi komið fram en vantar enn upplýsingar um hvað gerðist,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn. Hann minnir ökumenn á að taka lyklana með úr bílunum og læsa þeim en það hafði ekki verið gert í þessu tilfelli.

Lögreglan hefur síðustu vikur fylgst með veiðimönnum en rjúpnaveiðin stendur nú sem hæst. Jónas segir þá veiðimenn sem afskipti hafi verið höfð af hafa verið með allt sitt á hreinu en veiðin þótt heldur dræm.

Þá hefur lögreglan á Austurland tekið nokkra ökumenn fyrir of hraðan akstur. „Menn mega að fara að hugsa öðruvísi í þeim efnum. Á fjallvegunum getur myndast hálka sem sést ekki endilega, einkum á morgnana og kvöldin, þannig menn verða að hafa varann á. Blessunarlega hafa engin slys orðið enn en þegar hitamælirinn í bílunum sýnir fjórar gráður getur veghitinn verið kominn niður fyrir frostmark.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.