Stórurð friðlýst - Myndir
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, undirritaði á föstudag friðlýsingu jarðanna Hrafnabjarga, hluta Sandbrekku, Unaóss og Heyskála á Úthéraði sem landslagsverndarsvæði. Innan verndarsvæðisins er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og náttúruvættið Stórurð.Undirritunin fór fram á bökkum Selfljóts en markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og sérstætt landslag á svæðinu og standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa.
Svæðið sem friðlýst var í dag er hluti af þyrpingu eldstöðva sem teljast meðal þeirra elstu á Austfjörðum og eru um 13,5 til 12 milljón ára gamlar. Afar fjölbreytt landslag er á þessum slóðum þar sem fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á umhverfið og má víða sjá grjótjökla og berghlaup. Frægast þeirra er Stórurð, sem er gömul skriða úr móbergsbjörgum sem eiga uppruna sinn í Dyrfjallaeldstöðinni.
Landeigendur þakklátir
Stærstur hluti Stórurðar tilheyrir jörðinni Hrafnabjörgum. Landeigendur þar lýstu ánægju sinni með friðlýsinguna við athöfnina, en ekki hefur verið föst búskapur eða búseta á henni í 76 ár.
„Við systkinin erum innilega þakklát fyrir þann áfanga sem í dag næst við í að varðveita þá náttúruperlu sem landareignin er. Við höfum fylgst með sívaxandi vinsældum Stórurðar og hvernig umferðin þangað markar sín spor á kostnað landsins. Hér eystra vorar stundum seint, líkt og nú í ár. Þá verður gróðurtíminn í urðinni stundum afar stuttur til að græða þau sár sem mikil og stundum óvægin umferð skapa.
Við sem einstaklingar gerðum okkur grein fyrir því að við ættum enga möguleika á að bæta, leiðbeina eða breyta til batnaðar þessari umferð. Fyrir tæpum þremur árum töldum við að við svo búið mætti ekki standa og höfðum samband við Stefán Boga Sveinsson, formann náttúruverndarnefndar Fljótsdalshéraðs. Þá fór boltinn að rúlla,“ sagði Jóhanna Sigmarsdóttir, ein þeirra sex systkina sem eiga jörðina. Hún þakkaði fulltrúum sveitarfélagins og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, sem séð hefur um svæðið síðustu ár, fyrir að láta friðlýsinguna verða að veruleika.
Mikilvægur áfangi í náttúruvernd á Austurlandi
En meira er friðlýst en Stórurð. Á svæðinu er fjölbreytt fuglalíf og þar verpa hátt í 40 fuglategundir, meðal annars tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Einnig er þar að finna ýmsan sérstakan gróður, meðal annars línarfa og lyngbúa sem eru á válista, sjaldgæfar vistgerðir og tvo sellátur.
Þá eru á svæðinu merkar sögulegar minjar, meðal annars gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík. Gönguleiðin í Stapavík liggur um jörðina Unaós og Heyskála en á henni er stundaður sauðfjárbúskapur.
„Þessi friðlýsing er mikilvægur áfangi í náttúruvernd á Austurlandi. Við erum hér að skapa umgjörð til að halda utan um svæðið til langrar framtíðar,“ sagði Guðmundur Ingi.
Mikilvægt að stýra umferð
Hann sagðist hafa fundið fyrir síauknum áhuga bæði sveitarstjórna og landeigenda til að varðveita svæði með friðlýsingum en á tæplega fjögurra ára ráðherratíð hefur hann gefið út 22 nýjar slíkar og kvaðst ekki vera hættur.
„Það er mikilvægt að friðlýsa því eins og Jóhanna nefndi hafa landeigendur ekki burði til að ráða við eða stýra umferð þegar gestum fjölgar. Friðlýsingum fylgir fjármagn til að geta byggt upp innviði til að taka á móti fólki. En þetta er líka náttúrunnar vegna, þannig hún geti þróast eftir eigin reglum. Við verðum áfram að eiga svæði þar sem ekki er uppbygging, sem fá að vera eins og þau eru en til þess eru friðlýsingar mikilvægar til að stýra fólki inn á ákveðin svæði.“
Guðmundur Ingi bætti við að friðlýsingar, og það fjármagn sem þeim fylgdi frá ríkinu, gætu skapað atvinnu og þannig styrkt byggð í landinu. „Friðlýsingum fylgja störf og fólk sækir í að fara inn á þessu svæði. Það skiptir máli fyrir byggðaþróun.“
Djásnin friðlýst
„Við friðlýsum svæði vegna þess að þau eru merkileg og okkur dýrmæt á einhvern hátt. Og þegar ég skoðaði kort yfir friðlýst svæði á landinu þá rann mér það til rifja hvað þau voru fá Austurlandi. Mér fannst að með því værum við að segja að Austurland væri ekkert merkilegt. Hér væri ekkert að sjá. Þessu vildi ég breyta,“ sagði Stefán Bogi.
„Hér á Fljótsdalshéraði eru margar sannkallaðar náttúruperlur, sem eru okkur öllum dýrmætar. Og hvernig meðhöndlum við djásn í okkar eigu? Við búum vel um þau, sjáum til þess að þau verði ekki fyrir skemmdum og við sýnum þau með stolti gestum okkar. Það er þess vegna sem við friðlýsum svæði á borð við þetta. Þau eru djásnin okkar sem við erum stoltust af og viljum vernda.“
Að athöfninni lokinni var gengið inn að Hrafnabjörgum þar sem systkinin tóku á móti rúmlega 50 gestum með kaffiveitingum.