Strandveiðifrumvarp samþykkt þrátt fyrir mótmæli Austfirðinga

Austfirskir smábátasjómenn óttast að einstakir landshlutar geti orðið að öllum möguleikum til strandveiða með samþykkt nýrra laga um strandveiðar á Alþingi í gær.

Til þessa hefur strandveiðisvæðunum skipt upp í fjögur landssvæði og er nær allt Austurland á svæði C sem nær frá Þingeyjarsveit að Djúpavogi. Til þessa hefur verið úthlutað ákveðnum kvóta á hvert svæði.

Í lögunum sem samþykkt voru í gær er dregið úr svæðaskiptingunni. Þar er ráðherra veitt heimild til að stöðva strandveiðar þegar ljóst er að heildarafli strandveiðibáta sé kominn umfram það magn sem úthlutað er á landsvísu.

Eins og fram kemur í umsögn Félags smábátasjómanna á Austurlandi getur þetta orðið til þess að mikill afli á einu svæði geti orðið til þess að aðrir fái ekkert að veiða.

Í umsögninni, sem undirrituð er af formanninum Ólafi Hallgrímssyni, segir að brýnt sé að halda svæðaskiptingunni til að tryggja að veður og misjöfn aflabrögð komi ekki í veg fyrir að einstakir landshlutar verði af allri veiði.

Í greinargerð félagsins er lagt til að nýja reglan gildi aðeins fyrir svæði A, frá Eyja- og Miklaholtshreppi að Súðavík og þangað verði þeim viðbótarafla sem frumvarpið gerir ráð fyrir ráðstafað. Hvatt er til þess að veiðidagar, fjórir dagar í vikur, verði áfram á hinum svæðunum enda hafi það markmið náðst á einu þeirra og sé að nást á hinum tveimur.

Í umsögn Fjarðabyggðar er einnig lagst gegn þessari breytingu. Mikilvægt sé að tækifærin til veiða séu hin sömu á því tímabili sem lögin nái til. Taka þurfi tillit til göngu fiskistofna um veiðisvæði landsins.

Bent er á að strandveiðarnar séu mikilvægar fyrir fiskmarkaði og bolfiskvinnslur og tryggi þeim gott hráefni, einkum yfir sumartímann. Sókn á föstum dögum leiði til jafnari vinnslu í hverjum mánuði og með því sé aukið við byggðafestu og tækifæri til nýliðunar í greininni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar