Stuðningur við fólk á óvissutímum
Ekkert nýtt covid-19 smit greindist á Austurlandi á síðasta sólarhring. Áfram fækkar þeim sem eru í sóttkví.Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands.
Átta smit hafa alls greinst í fjórðungnum, sex þeirra smituðu hafa náð sér en tveir eru enn í einangrun. Átta dagar eru síðan síðast greindist smit á svæðinu. Sautján eru í sóttkví, þremur færri en í gær.
Í tilkynningunni er farið yfir fólk sem þarf stuðning á óvissutímum eins og nú ríkja. Eðlilegt er að vanlíðan og hræðsla geri vart við sig og er áréttað að fólk snúi sér þá til heilbrigðisþjónustunnar; hringja í sína heilsugæslustöð eða hafa samband í gegnum almenn skilaboð á heilsuvera.is. Einnig má hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717 og vaktsíma heilsugæslunnar 1700 utan dagvinnutíma.