Stuðningur við Álftanes bitnar á Breiðdalshreppi
Aukinn stuðningur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga við hið skuldsetta sveitarfélag Álftanes bitnar á mörgum öðrum smærri sveitarfélögum. Breiðdalshreppur er í þeim hópi. Sveitarstjórinn segir galið að velta vandanum yfir á önnur sveitarfélög.
Frá þessu er greint í Austurglugganum. Til stendur að úthluta 300 milljónum (40%) af svokölluðu aukaframlagi sjóðsins til Álftnesinga. Þetta bitnar á sveitarfélögum eins og Breiðdalshreppi sem hefur verið með tiltölulega hátt hlutfall tekna sinna úr framlagi frá sjóðnum.
„Það er galið að gera þetta með þessum hætti þó svo ég geri ekki lítið úr vandræðum Álftaness en það væri miklu nær fyrir stjórnvöld að taka á vandamálum þeirra með sérstökum hætti án þess að velta vandamálum sveitarfélagsins yfir á önnur sveitarfélög út á landi,“ segir Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps.
„Það verður einfaldlega enn þyngra fyrir okkur að koma fjárhagnum saman og enn hafa engar ákvarðanir verið teknar. Við erum öll að meta stöðuna og velta fyrir okkur hagræðingarmöguleikum en við viljum bíða og sjá hver lokatalan úr framlagi sjóðsins verður áður en við tökum ákvarðanir.“