Stýra U-710 með Xbox fjarstýringu

Neðansjávardróni frá björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði er meðal þeirra tækja sem nýtt eru til leitar að manni sem talinn er hafa fallið frá borði á fiskiskipi á leið þess til hafnar á Vopnafirði í gær. Dróninn getur kafað niður á allt að 150 metra dýpi.

„Við erum uppi í bát með 150 metra kapal í græjuna, horfum á iPad, notum Xbox fjarstýringu til að stýra, sveimum yfir botninum og siglum eftir kompás. Framan á honum er myndavél og ljós.

Við komum honum niður á 150 metra dýpi, kapallinn nær ekki lengra,“ segir Birkir Friðriksson, félagi í Ísólfi og neðansjávardrónastjóri.

Birkir er meðal þeirra sem tekið hafa þátt í leitinni í morgun. „Við vorum með hann á 82 metra dýpi í morgun. Botninn hér er tiltölulega sléttur og skyggnið gott. Dróninn virkar ágætlega við þessar aðstæður. Rafhleðslan endist í klukkutíma. Fyrsti klukkutíminn er yfirleitt erfiðastur, hann fer í að finna taktinn,“ útskýrir hann.

Neðansjávardróninn hefur verið í eigu Ísólfs í um 1,5 ár. Hann hefur einu sinni áður verið nýttur til leitar að fólki, í Þingvallavatni í fyrra sumar.

Hann hefur einnig verið nýttur í þjónustuverkefni, svo sem skoða botna á bátum. „Norðfirðingar komu með Hafbjörgina til Seyðisfjarðar í fyrra og fengu hnúfubak í skrúfuna í miðjum firðinum. Við fengum verkefni þar,“ segir Birkir.

Dróninn er merktur með númerinu U-710. U-ið vísar til kafbáta en 710 er póstnúmer Seyðisfjarðar. „Við settum þetta á í gríni. Svo kom í ljós að U-710 var kafbátur sem sökkt var við Íslandsstrendur í seinna stríði.“

Birkir og Davíð Kristinsson, varaformaður Ísólfs, með neðansjávardrónann U-710, sem einnig gengur undir nafninu Djúphildur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar