Styrkur til að byggja átta íbúðir á Seyðisfirði

Seyðisfjarðarkaupstaður er meðal þeirra fimmtán sveitarfélaga í gær fengu úthlutað samtals 3,6 milljörðum króna í stofnframlög húsnæðis frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Framlagið fer til að reisa búsetukjarna fyrir 55 ára og eldri í bænum.

Alls verða byggðar eða keyptar 600 íbúðir víða um landið, svokallaðar almennar íbúðir. Ætlunin er að styðja við framboð ódýrra leiguíbúða fyrir almenning og skiptast þannig að 438 íbúðir verða byggðar og 162 byggðar.

Átta íbúðir verða byggðar á Seyðisfirði, í búsetukjarna fyrir 55 ára og eldri. Með tilkomu hans er vonast til að hreyfing komist á húsnæðismarkaðinn á staðnum, eins og Austurfrétt hefur áður fjallað um. Kaupstaðurinn leggur til lóð og rúmar 30 milljónir króna í verkefnið sem renna inn í húsnæðissjálfseignastofnun sem heldur utan um bygginguna.

Áður hafði Seyðisfjörður verið valinn sem eitt af átta sveitarfélögum til þátttöku í tilraunaverkefni ríkisins um uppbyggingu húsnæðis og örvun fasteignamarkaðar á landsbyggðinni.

Ætlað að auka öryggi á leigumarkaði

Í tilkynningu stofnunarinnar segir að stofnframlögin renni til byggingaraðila í almenna íbúðakerfinu og sé ætlað að slá á mikinn húsnæðisvanda sem lægri og millitekjuhópar hafi strítt við undanfarin ár. „Fólk sem leigir íbúð í kerfinu þarf ekki að verja jafn stórum hluta af ráðstöfunartekjum heimilisins til húsnæðis og það myndi í mörgum tilfellum gera á frjálsa leigumarkaðnum og býr við meira öryggi því ekki er hægt að segja upp leigunni nema að ýmsum skilyrðum uppfylltum.“

Hluti framlags ríkisins er í samræmi við lífskjarasamningana sem gerðir voru vorið 2019 til að flýta fyrir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda.

Heildarfjárfesting upp á tæplega 20 milljarða króna  

Stofnvirði þeirra verkefna sem samþykkt voru í þessari úthlutun felur í sér fjárfestingu á húsnæðismarkaði upp á tæplega 20 milljarða króna. Þar af fara tæpir 14 milljarðar í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og 6 milljarðar í kaup.  

Alls bárust HMS 35 umsóknir um samtals 5,6 milljarða króna og af þeim voru 31 umsóknir samþykktar, ýmist að fullu eða að hluta til. Sveitarfélög nutu forgangs við úthlutunina og hlutu alls um 1,2 milljarða króna. 

Eftirspurnin sýnir að leiguíbúðir vantar

„Þær 600 íbúðir sem verið var að úthluta til núna er gríðarlega mikilvæg viðbót við almenna íbúðakerfið. Sú mikla eftirspurn sem er eftir stofnframlögum sýnir svo ekki verður um villst að enn er mikil vöntun á hagkvæmum leiguíbúðum þar sem fjölskyldur geta búið sér til öruggt heimili til langs tíma.

Það er því fagnaðarefni að stjórnvöld hafi ákveðið að auka framlög til almenna íbúðakerfisins á komandi árum, sérstaklega nú þegar atvinnuleysi hefur aukist í kjölfar COVID-19 og fyrirséð að þörfin eftir ódýru leiguhúsnæði muni aukast sömuleiðis,“ er haft eftir Önnu Guðmundu Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóra HMS.

Á síðustu fjórum árum hefur HMS úthlutað ríflega 15 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á rúmlega 2.600 almennum íbúðum fyrir hönd ríkissjóðs. Nú þegar hafa um 600 fjölskyldur flutt inn í almennar íbúðir þar sem þær búa í öruggri langtímaleigu á viðráðanlegu verði.  

Alls fengu 15 sveitarfélög úthlutað stofnframlögum en flestar af íbúðunum 600 eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 472. Auk íbúðanna átta á Austurlandi er um að ræða 14 íbúðir á Norðurlandi eystra, 13 á Norðurlandi vestra, 10 á Suðurlandi, 12 á Suðurnesjum, fjórar á Vestfjörðum og 67 á Vesturlandi.  

Sveitarfélögin sem fengu úthlutað eru: Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Garðabær, Grindavíkurbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Hveragerðisbær, Kópavogsbær, Norðurþing, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Seyðisfjarðarkaupstaður, Snæfellsbær, Strandabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Vesturbyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.