Sveitarfélögin fá meiri völd innan Austurbrúar

Ný lög um skipan stjórnar Austurbrúar voru samþykkt á framhaldsaðalfundum stofnunarinnar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) á Egilsstöðum í gær. Stjórnir beggja félaga verða framvegis nánast þær sömu. Formaðurinn vonast til að ekki þurfi að eyða meiri tíma í að ræða stjórnskipulag stofnunarinnar.

Stærsta breytingin sem samþykkt var í gær felst í að þeir sjö einstaklingar sem sitja í stjórn SSA verða framvegis einnig í stjórn Austurbrúar, ásamt formanni og varaformanni sérstaks fagráðs hagsmunaðila, sem aðild eiga að Austurbrú. Stofnun þess var einnig einnig samþykkt í gær.

Þá var einnig samþykkt að stofna þriggja manna framkvæmdaráð Austurbrúar sem fer með mál á milli stjórnarfunda. Slík ráð er einnig hjá SSA. Í þeim þurfa ekki að sitja sömu einstaklingar en fulltrúar sveitarfélaganna í stjórn Austurbrúar hafa atkvæðamagn til að binda svo um hnútana ef þeir vilja.

Breytingarnar voru samþykktar á báðum fundum með miklum meirihluta.

Stöðug endurskoðun frá stofnun Austurbrúar

Þær eiga sér nokkuð langan aðdraganda því nánast stöðugt frá stofnun Austurbrúar í maí 2012 hefur samlegð stofnunarinnar og landshlutasamtakanna verið í þróun. Þannig var staða framkvæmdastjóra SSA um tíma felld undir stofnunina en henni gefið meira sjálfstæði á ný 2017. Eins hafa orðið breytingar á hvernig stjórnin er samsett.

Austurbrú varð til við sameiningu nokkurra stoðstofnana sveitarfélaganna á Austurlandi, en einkafyrirtæki og félagasamtök, eða aðrir hagsmunaðilar, áttu aðild að nokkrum þeirra. Erfitt hefur á köflum reynst að sigla á milli skers og báru hagsmuna allra sem koma að.

Samstarfið var tekið til endurskoðunar af milliþinganefnd sem skipuð var að loknu þingi SSA 2017 og skilaði af sér síðasta haust. Meðal tillagna hennar var að sama stjórn yrði yfir bæði Austurbrú og SSA. Hluti tillagna nefndarinnar var samþykktu á þinginu, en til dæmis stjórnarskipanin var unnin áfram af starfsháttanefnd Austurbrúar, sem kom með tillöguna sem nú hefur verið samþykkt.

Með tillögunni er að vissu leyti horfið aftur til upprunans þar fulltrúar úr stjórn SSA sátu í stjórn Austurbrúar og sami formaður fór fyrir báðum. Fulltrúarnir voru þá reyndar í minnihluta.

Fjárhagslegri ábyrgð fylgi völd

Að loknu þingi SSA síðasta haust var kosinn sami formaður í báðum stjórnum, Einar Már Sigurðsson úr Neskaupstað. Hann segir sveitarfélögin hafa gert tilkall til ríkari áhrifa innan Austurbrúar.

„Þau hafa verið drífandi í samstarfinu sem rann inn í Austurbrú og fjármögnun stofnunarinnar. Þeir ríkisstyrkir sem fylgdu verkefnum sem fóru til stofnunarinnar komu í gegnum sveitarfélögin og á þeim tíma sem hallaði undan fæti hjá Austurbrú voru það sveitarfélögin sem réttu hana við. Viðhorf þeirra var því að ef þau ættu að bera fjárhagslega ábyrgð yrðu þau að geta ráðið för.“

Orkan fari í stóru hagsmunamálin

Einar Már, sem einnig sat í milliþinganefnd SSA, vonast til að með breytingunum sé kominn á friður um Austurbrú og samstarf hennar við SSA. „Það hefur verið lögð áhersla á að ná samstöðu. Góð umræða var nauðsynleg og þótt ekki niðurstöðurnar hafi ekki verið einróma var mikill meirihluti eftir þeim. Ég vona að menn virði það og vinni eftir því.

Ég vona að eftir gærdaginn geti menn einhent sér í að vinna að þeim stóru verkefnum sem koma landshlutanum best í stað þess að eyða tíma og orku í að þrátta um skipulagsmál.“

Breytingarnar taka formlega gildi að loknum aðalfundum stofnanna sem verða um mánaðarmótin apríl/maí. Í gær var ákveðið að aðalfundur SSA yrði framvegis sama dag og aðalfundur Austurbrúar, í stað þess að vera að hausti í tengslum við þing samtakanna.

Frá stofnfundi Austurbrúar í maí 2012. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.