Svipmyndir úr heimsókn forsetahjónanna til Seyðisfjarðar
Heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid, forsetafrúr til Seyðisfjarðar lauk um klukkan fjögur í dag. Forsetahjónin komu víða við og hittu fólk sem lýsti fyrir þeim bæði skriðuföllunum í desember og afleiðingum þeirra.Heimsóknin hófst reyndar í gær á Egilsstöðum þar sem rætt var við sjálfboðaliðar úr fjöldahjálparmiðstöðinni sem opnuð var þar að kvöldi 18. desember.
Dagskráin hófst svo aftur klukkan tíu í morgun með heimsókn í Seyðisfjarðarskóla þar sem forsetahjónin fóru inn í alla bekki. Nemendur fengu þar tækifæri til að spyrja forsetahjónin spurninga og ræða við þau um ýmis málefni.
Bar þar margt á góma, meðal annars skoðun forsetans á því að setja ananas á pítsur yfir því hvar íslenska ríkið geymi geimverur. En þar voru líka rædd alvarlegri málefni, eins og reynsla krakkanna í kringum skriðuföllin, einkum þegar komið var upp í eldri bekkina.
Að því loknu var skriðusvæðið kannað undir leiðsögn Ólafs Hr. Sigurðssonar, fulltrúa úr heimastjórn Seyðisfjarðar og við í geymsluhúsnæði á svæði Síldarvinnslunnar þar sem verið er að fara í gegnum muni sem fundist hafa í skriðunni, bæði af heimilum fólks sem af Tækniminjasafni Austurlands og útskýrt hvernig sú vinna fer fram.
Eftir hádegismat sat forsetinn fund með kjörnum fulltrúum og starfsmönnum almannavarna þar sem farið var yfir viðbrögð og líðan bæjarbúa í kjölfar áfallanna.
Þaðan var haldið í húsnæði björgunarsveitarinnar Ísólfs og hittir sjálfboðaliðar sem stóðu í eldlínunni í kringum skriðuföllin. Sumir þeirra höfðu verið í húsnæði sveitarinnar þegar hamfarirnar dundu yfir og flúið í ofboði á bakvið Gamla ríkið. Stóra skriðan lenti á utanverðu björgunarsveitarhúsinu.
Þar, líkt og annars staðar þar sem forsetahjónin komu, heyrðu þau sögur af fólki sem slapp naumlega frá skriðunni, oft að því er virðist fyrir hreina tilviljun. Þau fengu líka lýsingar af þeim gríðarlegu rigningum sem voru dagana á undan en líka framtíð bæjarins. Hafði Guðni gjarnan á orði að Seyðisfjörður yrði aftur fallegur – bara öðruvísi fallegur.
Heimsókninni lauk svo á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð.