Önnur vél sótti farþega Play

Farþegar Play, sem eyddu Þorláksmessu á Egilsstöðum þar sem flugvél þeirra gat ekki lent í Keflavík nóttina áður, komust á áfangastað á fjórða tímanum í nótt.

Um sólarhring áður hafði vél þeirra á leið frá Kanarí lent á Egilsstöðum. Vélinni var beint þangað eftir að hafa sveimað í einn og hálfan tíma yfir Keflavíkurflugvelli og ekki getað lent vegna óveðurs. Þegar komið var austur hafði áhöfnin lokið leyfilegum flugtíma.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst voru á sjöunda tug farþega í ferðinni. Þeim var komið fyrir á hótelum á Egilsstöðum.

Til stóð að senda áhöfn austur í gær með áætlunarflugi en það fór úr skorðum. Að lokum var lending sú að tóm vél fór frá Keflavík til Egilsstaða eftir farþegum. Hún var lent kortér í tvö í nótt og stoppaði í sléttan klukkutíma. Hún lenti síðan í Keflavík upp úr 3:30 í nótt.

Sú vél var á ferðinni í allan gærdag, fyrst til Lundúna, síðan til Madeira, töluvert á eftir áætlun á síðarnefnda staðinn enda áætlanir Play úr skorðum með eina vél flotans fasta á Egilsstöðum.

Vélin sem upphaflega kom frá Kanarí fór nokkrum mínútum fyrr í loftið frá Egilsstöðum.

Mynd: Benedikt V. Warén

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.