„Svona ástand krefur þig um að hugsa í lausnum eða drepast“
Að færa veitingavagninn Fjallkonuna var svar aðstandenda Hótel Hildibrands í Neskaupstað við því breyttum veitingamarkaði á tímum covid-19 veirunnar. Þeir segjast treysta á viðskipti heimamanna í sumar sem virðast vera komnir á bragðið af lambakebabi.„Svona ástand krefur þig um að hugsa í lausnum eða drepast,“ segir Hákon Guðröðarson sem tekur á móti pöntunum viðskiptavina og afhendir þeim síðan matinn í gegnum lúguna.
Veitingavagninn Fjallkonan hefur að undanförnu staðið á bílaplani við Áhaldaleigu Austurlands á Reyðarfirði. „Þannig lagað er þetta ólýsanlegt högg fyrir okkar rekstur,“ segir Hákon, hótelstjóri á Hildibrand sem gerir út vagninn.
„Fyrst lokaði mötuneyti Verkmenntaskólans, sem við sjáum um og svo reyndum við að hafa opið fyrir fólk til að fara út að borða með þrengingum.
Það voru hins vegar fáir á ferlinu í Neskaupstað í hádeginu en við vissum að hér væru margir. Þess vegna sáum við tækifæri og prufuðum að fara hingað. Okkur hefur verið brjálæðislega vel tekið, að jafnaði koma hingað 80 manns í hverju hádegi.“
Farið að verða léttara yfir fólki
Hákon segir fólk víða af Austurlandi skjótast yfir á Reyðarfjörð í hádeginu. „Hér vinnur fólk af Austurlandi en við sjáum líka fólk koma frá Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Egilsstöðum á mestu góðviðrisdögunum.“
Hákon segir að fólk sé farið að fara meira á stjá en fyrstu vikur samkomubannsins. „Við finnum að það er léttara yfir fólki. Allra síðustu daga höfum við fengið til okkar fólk yfir sjötugu, sá aldurshópur hefur varla sést í samfélaginu. Það kemur kannski ekki á háannatímanum í hádeginu heldur velur sér stund og mætir til að lyfta sér upp. Ég held að fólk upplifi götubitann sem öruggan, það er úti og snertifletirnir eru fáir.“
Einn réttur á matseðlinum, öðrum fremur, virðist draga að hungraða Austfirðinga, lambakebab. „Það hefur eiginlega aldrei tekist að gera almennilegan skyndibita úr lambakjöti en fólk kemur til okkar dag eftir dag til að panta kebabið. Það var samt úrræði, við notum í þetta úrvals lambalæri sem tekin voru frá síðasta haust í brúðkaupið okkar sem átti að vera um páskana.“
Sumarið verður ekki eðlilegt
Rekstur Hildibrand hefur orðið fyrir miklu höggi, eins og öll önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu. Framundan er sumarið, sem alla jafna hefur verið lykiltími fyrirtækjanna eystra.
„Það er útséð um að þetta verður ekki eðlilegt sumar. Við getum í fyrsta lagi átt von á ferðamönnum þegar líður á sumarið. Ferðalög snúast ekki bara um landamæralokanir heldur hvenær flugið kemst aftur í gang.
Allar okkar áætlanir nú ganga út á hvernig við getum lifað af með að treysta á gott sumar með heimamönnum og öðrum gestum. Aðrir gestir verða bara plús. Við höfum trú á að það gangi, við höfum séð að heimamarkaðurinn getur verið drjúgur.“