Sýknaður af ákæru um árás gegn fyrrum sambýliskonu

Héraðsdómur Austurlands hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að hafa veist gegn þáverandi sambýliskonu sinni með harkalegum hætti. Manninum var gefið að sök að hafa tekið konuna kverkataki og slegið hana í snörpum deilum á heimili þeirra.

Atvikið átti sér stað á sunnudagsmorgni í byrjun júlí 2022. Konan hafði farið í nálægan byggðakjarna til að skemmta sér kvöldið áður meðan maðurinn var á næturvakt. Símasamskiptum þeirra um nóttina lauk með því að hún hætti að svara og maðurinn fór snemma heim af vaktinni.

Þegar hún kom heim á ellefta tímanum um morguninn mun maðurinn hafa verið búinn að setja dót konunnar í plastpoka og tilkynnt henni að hún skyldi fara úr íbúðinni. Óumdeilt er að í samskiptin hafi fljótt farið úr böndunum en þeim ber ekki saman um hvað gerðist.

Konan segir manninn tvisvar hafa tekið sig kverkataki og þrengt að öndunarvegi svo hún óttaðist um líf sitt. Hún hafi síðan róað sig og komið sér út úr íbúðinni, en hann þá elt hana fram á stigagang hússins og veitt henni högg í síðuna.

Maðurinn segir konuna byrjað átökin með að ráðast á sig með hárbursta. Þar sem árásin kom aftan frá hafi hann ekki séð burstann heldur óttast að hann hafi verið hnífur. Því hafi hann rifið í hönd hennar og hár og hent henni af afli út úr íbúðinni. Mögulega hafi hún lent á stigahandriðinu, þó einnig kunni hún að hafa meiðst við að detta. Maðurinn kveðst hafa lokað íbúðinni og ekki farið út úr henni fyrr en lögreglan knúði dyra.

Læknar töldu áverka geta stutt frásögn beggja. Konan neitaði þó að hafa slegið manninn með hárburstanum eða að hafa dottið í stigaganginum. Hún sagðist ekki hafa séð manninn slá sig í síðuna því hann hefði komið aftan að henni.

Íbúar í næstu íbúðum heyrði læti í handriði og eitt þeirra var að hljóðin hefðu verið eins og einhver slagaði um í stigaganginum. Þeir sögðu konuna hafa verið í annarlegu ástandi. Hún sagðist ekki hafa verið ölvuð en eftir sig vegna drykkju. Hvorki lögregla né læknar töldu konuna hafa verið áberandi ölvaða.

Í niðurstöðu dómsins segir að ákæran byggi fyrst og fremst á framburði konunnar. Á móti komi að framburður mannsins og neitun hans hafi líka verið stöðug. Þegar allt komi til alls sé parið eitt til frásagnar um atburði sunnudagsmorgunsins og því hafi ákæruvaldinu ekki tekist að sanna brotin með óyggjandi hætti. Þótt áverkar í baki væru trúlega frá þessum morgni væri ekki ljóst hvernig þeir væru til komnir. Því var maðurinn sýknaður og tveggja milljóna málskostnaður felldur á ríkið.

Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi nokkrum mánuðum síðar verið dæmdur fyrir brot gegn konunni. Þau höfðu gift sig í byrjun sumars 2022 og fluttu aftur saman eftir átökin. Um haustið fóru þau svo í brúðkaupsferð erlendis þar sem hann var handtekinn á hóteli þeirra fyrir árás á hana. Maðurinn játaði það og var dæmdur þarlendis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar