Sýni tekin á Seyðisfirði á morgun

Taka þarf sýni úr farþegum Norrænu þegar ferjan kemur til hafnar á Seyðisfirði í fyrramálið þar sem ekki tókst að senda heilbrigðisstarfsfólk til Færeyja í morgun. Farþegar geta þurft að bíða í upp undir sólarhring eftir niðurstöðum.

Á miðnætti tóku gildi reglur um að erlendum ferðamönnum sé heimilt að sleppa við sóttkví við komuna til landsins, gegn því tekin séu sýni úr þeim til að leita að Covid-19 veirunni. Farþegar Norrænu, sem kemur til Seyðisfjarðar á morgun, falla undir þessar reglur.

Til stóð að taka sýni úr farþegum á leið þeirra til Íslands. Í morgun átti sýnatökuteymi, frá Reykjavík og Egilsstöðum, að fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Færeyja en ekki var hægt að lenda í Færeyjum vegna þoku. Ferjan er nú nýfarin frá Þórshöfn.

Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Austurlands þarf þess vegna að taka sýni í fyrramálið úr farþegum þegar ferjan kemur til Seyðisfjarðar. Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands eru 155 farþegar um borð, þar af 85 sem þurfa skimun, en engar hömlur eru á ferðum Færeyingar og Grænlendinga til og frá landinu auk þess sem ferðamenn geta enn kosið að fara í sóttkví.

Að sýnatöku lokinni fara farþegar í land eins og venjan er. Ætlast er þó til að þeir hafi hægt um sig þar til niðurstöður skimunarinnar liggja fyrir og fá þeir leiðbeiningar um hvernig þeir eigi að haga sér þangað til.

Sýnin þarf að senda suður til Reykjavíkur. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn, segir að reynt verði að hraða greiningu sem mest en farþegar megi búast við að allt að sólarhringur líði þar til niðurstöðurnar liggja fyrir. Þá verður haft samband við farþega og ráðstafanir gerðar reynist þeir smitaðir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar