„Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti“

„Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni. Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, en Að austan leit við á opnun sýningarinnar List án landamæra í dögunum.



List án landamæra var fyrst haldin í Reykjavík á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og hefur verið haldin á Fljótsdalshéraði síðan 2005, en síðustu ár hefur hún einnig teygt anga sína um allt Austurland.

Fjölmenni var á opnun hátíðarinnar sem haldin var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Dagskráin var skemmtileg og samanstóð af spunaverki, tónlist frá starfsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum auk þess sem sýningar á verkum listamannanna voru opnaðar víðsvegar um bæinn.

Sex sýningar voru opnaðar á Egilsstöðum á fimmtudaginn og standa þær allar til 11. maí. Auk þess verða sýningar á Djúpavogi um miðjan maí, í Neskaupstað í júní sem og á Seyðisfirði og Borgarfirði eystri í júlí. Allar upplýsingar um sýningahald, sem og hátíðina sjálfa, er að finna á síðunni listin.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar