Tæpar 280 milljónir austur vegna óveðurstjóns

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra tillögu um tæplega 280 milljóna styrk til stofnana og sveitarfélaga í kjölfar óveðurs sem gekk yfir fjórðunginn í lok síðasta árs.


Hæsti styrkurinn fer til Vegagerðarinnar 181,2 milljónir en af einstökum sveitarfélögum fær Fjarðabyggð mest, 46,3 milljónir.

„Ljóst er að fjárhagslegt tjón sveitarfélaga var þó nokkurt og erfitt fyrir þau að takast á við það án stuðnings. Hafnarmannvirki, grjótvarnir, veitukerfi, vegir og fleira sem tryggingar ná ekki yfir urðu fyrir skemmdum í sveitarfélögum á Austurlandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.

Húsafriðunarsjóður fær allt að 35 milljónir, Breiðdalshreppur 13,7, Djúpavogshreppur 1,7 og Borgarfjarðarhreppur 1,5.

Tjónamat á vátryggðum, tilkynntum og metnum tjónum til Viðlagatryggingar Íslands nema um 70 m.kr. vegna tjónamála hjá einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Örfá tjónamál eru enn í vinnslu, en fjárhæðir þeirra munu að líkindum hafa óveruleg áhrif á heildarkostnað.

Þá var samþykkt að veita 40 milljónum króna til Landgræðslu ríkisins vegna afleiðinga Skafthárhlaups síðasta haust.

Í kjölfar óveðursins var skipaður samráðshópur ráðuneytisstjóra fjögurra ráðuneyta sem haldið stöðufundi með aðilum sem að málum hafa þurft að koma vegna afleiðinga, brýnna aðgerða og mati á samfélagslegum kostnaði heildrænt því samfara.

Með hópnum störfuðu fulltrúar frá Viðlagatryggingu Íslands og fulltrúar frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Minjastofnun Íslands og Ofanflóðasjóði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.