Tvær milljónir til menningarverkefna í Fjarðabyggð

Stjórn Menningarstofu Fjarðabyggðar hefur samþykkt styrkveitingar til þrettán menningarverkefna á árinu en upphæð styrkjanna í heild að þessu sinni nemur tveimur milljónum króna.

Hæstu styrkirnir að þessu sinni voru annars vegar 300 þúsund króna framlag til Sinfóníuhljómsveitar Austurlands vegna frumflutnings á verkinu forStargazer og hins vegar sama upphæð til sirkuslistafélagsins Hringleiks sem áformar að setja upp götuleikhússýninguna Sæskrímslin. Pönktónlistarhátíðin Austur í rassgati fær 200 þúsund króna styrk að þessu sinni og það fékk líka Guðmundur Kristinn Höskuldsson til tónleikahalds í hinu nýja tónlistarhúsi BRJÁN Tónspil í Neskaupstað.

Aðrir viðburðir sem hlutu náð fyrir augum stjórnar Menningarstofu að þessu sinni af margvíslegum toga. Tveir styrkir til tónleikahalds í Tónlistarmiðstöð Austurlands, uppsetningar á ljósmyndasýningunni Milli fjallanna og sýningarröð ljósmyndarans Apolline Alice Penelope Barra, styrkur til bíósýninga á gömlu efni frá Eskifirði, útgáfu ljóðabókar og hljómplötuútgáfu auk annars.

Sem endranær voru styrkumsóknir mun fleiri og um mun hærri upphæðir en í boði voru að þessu sinni.

Sinfóníuhljómsveit Austurlands mun frumflytja verkið forStargazer eftir Charles Ross í Tónlistarmiðstöð Austurlands síðar á árinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar