Tæplega 100 milljónir í samfélagsstyrki á síðasta ári

SÚN, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, veitti á síðasta ári alls 95,5 milljónir króna í styrki til verkefna í samfélaginu á Norðfirði. Hagnaður af rekstri félagsins í fyrra var 415 milljónir króna.

SÚN styrkti íþróttamál í Fjarðabyggð um 24 milljónir í fyrra. Þá styrkti félagið Neistaflug, glervegg við heitan pott við sundlaugina í Neskaupstað, söfnun Rótarý til að styrkja þau sem urðu fyrir tjóni í snjóflóðunum, Björgunarsveitina Gerpi og 100 ára afmæli Íþróttafélagsins Þróttar.

Þá hefur félagið tekið að sér endurbætur á gervigrasvellinum í Neskaupstað. Þegar þetta allt er talið námu styrkirnir 95,5 milljónum króna.

Frá þessu var greint á aðalfundi félagsins sem fram fór fyrir viku. Félagði stendur vel, hagnaður þess í fyrra nam 415 milljónum króna og eignir þess er rúmar 22 milljarðar. Ein breyting varð á stjórn félagsins, Petra Lind Sigurðardóttir tók sæti Smára Geirssonar.

Á fundinum var farið yfir verkefni sem framundan. Þar ber hæst 750 fermetra viðbyggingu við samvinnuhúsið Múlann sem SÚN á. Þá standa yfir framkvæmdir við gervigrasvöllinn sem á að verða tilbúinn í byrjun júlí.

Á fundinum var meðal annars rætt um húsnæðismöguleika Tryggvasafns en SÚN hefur haft forgöngu að því að koma safninu í nýtt húsnæði. Í tilkynningu er haft eftir Magnúsi Jóhannssyni, stjórnarformanni, að félagar í SÚN líti björtum augum til framtíðarinnar. Það hafi komið að mörgum verkefnum sem bæti samfélagið til framtíðar, til að mynda byggingu 27 nýrra íbúða í samstarfi við Síldarvinnsluna og verktaka.

Ný stjórn SÚN og framkvæmdastjóri, frá vinstri: Petra Lind Sigurðardóttir, Jón Már Jónsson, Magnús Jóhannsson stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins Guðmundur R. Gíslason. Mynd: SÚN


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar