Tæplega 50 milljóna afgangur hjá Fljótsdalshéraði

Afkoma af rekstri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs árið 2015 var jákvæð um 46,2 milljónir króna, um tíu milljónum króna meira en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Hagnaðurinn árið áður var hins vegar tæpar 140 milljónir.


Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 755 milljónir. Veltufé frá rekstri nam 452 milljónum króna saman borið við rúmar 490 milljónir árið áður.

Eigið fé var jákvætt um 188 milljónir í árslok.

Skuldir og skuldbindingar samstæðu voru í lok árs 2015 tæpir 8,8 milljarðar í árslok. Það er hækkun um rúmar 240 milljónir sem skýrist meðal annars af lántöku vegna byggingar á nýju hjúkrunarheimili sem tekið var í notkun síðasta vor.

Skuldir miðað við tekjur sveitarfélaga eiga ekki að vera nema 150% samkvæmt lögum en eru 207% hjá Fljótsdalshéraði. Gert er ráð fyrir að viðmiðinu verði náð árið 2019.

Í tilkynningu sveitarfélagsins segir að afkoma ársins 2015 og þróun verðbólgu síðustu misseri styrki þá trú að markmiðið náist.

Heildartekjur Fljótsdalshéraðs á síðasta ári voru 3,7 milljarðar, þar af skatttekjur 2,7 milljarðar.

Launakostnaður nam 1,84 milljarði eða 49% af tekjum.

Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en nettókostnaður við hann var 1,6 milljarðar. Málaflokkurinn tók til sín 56,8% af skatttekjum.

Næst mest voru útgjöld til félagsþjónustu, um 400 milljónir og þar á eftir æskulýðs- og íþróttamál með 260 milljónir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.