Tæplega 9 þúsund króna gjald fyrir fáeinar mínútur á Egilsstaðaflugvelli
Jón Eiður Jónsson, sem bæði rekur leigu- og rútubifreið, telur sig hafa verið hlunnfarinn duglega þegar hann fékk fyrr í vikunni tæplega 9 þúsund króna bílastæðisreikning frá Isavia fyrir fimm daga notkun við Egilsstaðaflugvöll. Umrædd bifreið þó verið lagt við heimili hans lunga þess tíma.
Jón tjáði sig um þessa reynslu sína í hópnum Dýrt innanlandsflug - þín upplifun á Facebook fyrr í vikunni þar sem hann lýsti málavöxtum. Þó hann vissulega hafi skutlast til og frá flugvellinum á tímabilinu þá hafi hann aðeins dvalið í fáeinar mínútur í senn en ekki um sex daga skeið eins og reikningur Isavia gefur til kynna.
„Nú rek ég bæði leigubíl og rútu og á þess vegna oft erindi á flugvöllinn og átti erindi þessa daga sem ég er rukkaður fyrir sem eru frá 18. júlí klukkan rúmlega tíu um morguninn fram til þess 23. snemma að kvöldi. Tímasetningin þann 23. stemmir því ég átti erindi og fór frá vellinum á þeim tíma en að bíllinn hafi verið í stæði við völlinn í rúma fimm daga er algjörlega fráleitt. Bíllinn sem um ræðir var hér fyrir húsið mitt nánast allan þennan tíma sem ég er rukkaður fyrir.“
Engin svör né aðstoð
Jón Eiður hófst strax handa við að leita svara og bót sinni mála en það reyndist árangurslaust.
„Ég byrjaði á að hringja í Visa en þar var eina svarið að loka bara kortinu mínu. Svo hafði ég samband við Isavia og sú sem svaraði þar vissi ekki nokkurn hlut um nokkurn hlut og gat ekkert aðstoðað mig. Mér finnst þetta hreinn og beinn þjófnaður og eftir að ég birti þessa færslu hef ég heyrt að aðrir hafi fengið undarlega reikninga frá Isavia vegna bílastæðagjalda.“
Sjálfur telur Jón Eiður sterkar líkur á að myndavélarnar sem settar voru upp við flugvöllinn í síðasta mánuði séu ekki næmari en það að við tiltekin skilyrði greini þær ekki bílnúmerin og því fái fólk reikninga sem engin innistæða sé fyrir.
„Ég sjálfur búinn að velta þessu fyrir mér og kannski er þetta einhvers konar feill í vélunum. En það algjört lágmark að fá einhver svör frá Isavia en það ekki gengið neitt að ná í einhvern sem getur aðstoðað.“
Austurfrétt reyndi einnig ítrekað að ná sambandi við fulltrúa innanlandsdeildar Isavia vegna þessa máls en án árangurs.