Tæpum 13 milljónum úthlutað úr Samfélagssjóði Fljótsdals
Tæplega 13 milljónum króna var veitt til 22 verkefna við fyrstu úthlutun úr Samfélagssjóði Fljótsdalshrepps í gær.Sjóðurinn var stofnaður formlega í mars með 70 milljóna fjárframlagi frá Fljótsdalshreppi og auglýst eftir umsóknum í kjölfarið.
Tilurð sjóðsins er afurð átaks til að efla byggð í hreppnum. Markmið og tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni á sviði atvinnu, nýsköpunar, umhverfis, velferðar og menningar sem stuðli að jákvæðri samfélagsþróun og/eða eflingu atvinnulífs þar.
Einstaklingar, félög og aðrir lögaðilar geta fengið styrki úr sjóðnum óháð búsetu enda uppfylli verkefni sem óskað er eftir að verði styrkt skilyrði sem fram koma í markmiðum sjóðsins og skilyrði úthlutunarreglna sem stjórn skal setja sjóðnum.
Stjórn sjóðsins ákveður styrki til einstakra verkefna og hvernig þeir greiðast til styrkþega.
Alls bárust 34 umsóknir í fyrstu úthlutunina. Heildarkostnaður verkefna var rúmar 107 milljónir króna og alls sótt um tæplega 45,5 milljónir króna. Í gær var tilkynnt um tæplega 12,9 milljóna króna úthlutun úr sjóðnum til 22 verkefna við athöfn í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri.
Eftir talin verkefni hlutu styrk:
Upphæð Verkefni, styrkþegi
1.500.000 Sauðamjólkurís, Sauðagull ehf
1.200.000 Skinnaverkun, Hörður Guðmundsson
1.000.000 Stefnumót við Skógarsamfélag III, SAM-félagið, samstarfsverkefni
900.000 Markaðsátak, Óbyggðasetur ehf
860.000 Skemmtilega skiltið, Ferðamálanefnd Fljótsdalshrepps
800.000 Undirbúningur Hölknárvirkjunar – Brekku, Hallgrímur Þórhallsson
700.000 Tilraunaræktun á Burnirót í Fljótsdal, Þórarinn Þórhallsson og Sveinn Ingimarsson
600.000 Vandaðir húsmunir úr íslenskum við - Viðskiptaáætlun og vöruþróun, Bara snilld ehf, samstarfsverkefni.
600.000 Gerð viðskiptaáætlunar og stofnun félags um skinnaverkun, Jósef Valgarð Þorvaldsson
574.000 Efling réttardags, Ferðamálanefnd Fljótsdalshrepps
565.000 Rúningur og ullarmat - aukin gæði, Hallormsstaðaskóli, samstarfsverkefni.
500.000 Ævintýri á Héraði – fjölskylduleikur, Gunnarsstofnun f.h. Upphéraðsklasans.
500.000 Hnútu handverk, Kristín Gunnarsdóttir.
420.000 Námskeiðaröð í kjötvinnslu, Hallormsstaðaskóli
400.000 Gróðurhús og ræktun, Anna Jón Árnmarsdóttir
400.000 Tilraun á hamprækt, Anna Bryndís Tryggvadóttir og Hallgrímur Þórhallsson
350.000 Afþreying og leiktæki á tjaldstæði, Hengifoss ehf
300.000 Fljótsdalsbragðið, Ann-Marie Schlutz
275.000 Gönguleið um Tröllkonustíg og Klausturfjall, Hengifoss ehf.
200.000 Aðventa, Tónlistarfélagið Mógil
150.000 Skemmtikvöld, Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir
90.000 Ormsskrínið við Hrafnskelsstaði, Ormsskrínið