Tafir á auglýsingum um hreindýraveiðikvóta valda óþægindum

Leiðsögumenn með hreindýraveiðum eru ósáttir við hve seint hreindýraveiðikvóti undanfarinna þriggja ára hefur verið tilkynntur. Þeir hefðu frekar kosið að honum yrði flýtt. Umræða um veiðar á hreinkúm hafa flækt málin síðustu ár.

„Okkur finnst stjórnvaldið sýna ákveðið virðingarleysi með að fara ekki eftir þeim reglum sem gilt hafa. Svona óvissa er aldrei góð og það er leitt að ráðuneytið dragi lappirnar, ef ekkert annað hamlar.

Þetta veldur líka erfiðleikum fyrir veiðimenn sem eru að skipuleggja sumarið, einkum þá sem koma erlendis frá,“ segir Jón Hávarður Jónsson, formaður Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum.

Vilja úthluta að hausti

Félagið sendi nýverið erindi til sveitarstjórnar Múlaþings þar sem óskað var liðsinnis við að afla upplýsinga um hvað tefði auglýsingu kvótans. Árin 2014-18 lá kvótinn alltaf fyrir í janúar en síðustu þrjú ár hefur hann ekki verið auglýstur fyrr en í febrúar, í ár áttunda dag mánaðarins.

Í erindinu, sem sent var í byrjun janúar, er vakin athygli á að kvótafundir hreindýraráðs hafi verið haldnir í desember og þaðan hafi tillögur um kvóta verið sendar til Umhverfisráðuneytisins sem síðan sendi þær áfram til ráðuneytisins. Þar segir jafnframt að ekki hafi verið ágreiningur um veiðitíma eins og síðustu ár.

Tafir á auglýsingu leiða aftur til tafa á úthlutun kvótans, en dregið er úr umsóknum um leyfi um mánuði eftir auglýsingu. Það verður gert á morgun.

Jón Hávarður bendir á að í drögum að frumvarpi um veiðar á villtum dýrum sé gert ráð fyrir að kvótinn sé auglýstur eigi síðar en 15. janúar en hreindýraveiðimenn vilja jafnvel fá að vita kvótann enn fyrr. „Við hefðum helst viljað sjá kvótann auglýstan að hausti.“

Hann bætir við að breyting hafi orðið á úrvinnslu kvótans við að byrjað var að veiða hreindýr í nóvember, það hafi tafið afhendingu gagna frá eftirlitsaðilum. Hann telur þó að sú vinna ætti ekki að tefja því veiðarnar séu á afmörkuðu svæði og fjöldi þeirra dýra sem heimilt er að veiða þekktur.

Vel gengið að veiða geldkýr

Samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi fékk sveitarfélagið þau svör frá umhverfisráðuneytinu að úthlutunin í ár hefði dregist vegna umræðu milli ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar um veiðar á hreinkúm fyrstu tvær vikur veiðitímans í ágúst. Meðal annars hefði verið kallað eftir upplýsingum um hvort tilmæli frá í fyrra um að veiðimenn einbeittu sér að því að veiða geldar kýr á þeim tíma hefðu skilað árangri. Í auglýsingu um kvóta ársins eru þessi tilmæli ítrekuð.

Jón Hávarður segir að vel hafi gengið að fara eftir þessum tilmælum í fyrra. Annars vegar því í byrjun veiðitímabilsins séu færri á veiðum og því rýmri tími til að skoða hjarðirnar og sigta út geldkýrnar. Hins vegar því veiðimenn sækist almennt frekar eftir geldkúm því þær séu alla jafna vænni.

Hann bendir hins vegar á að þetta verði erfiðra eftir miðjan veiðitímann þegar veiðimönnum fjölgi og varar því við að hreindýraveiðitímabilið verði stytt. „Það veitir ekki af því að dreifa úr álaginu. Það er líka hluti af velferð dýranna, að þau fái reglulega frið til að bíta og hvílast.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.