Taflmaður úr hnefatafli fannst í uppgreftrinum á Seyðisfirði

Taflmaður úr hnefatafli fannst í gær við fornleifauppgröftinn á Seyðisfirði. Stjórnandi uppgraftarins segir fundinn styrkja tilgátu um að á þessum staði hafi verið kuml.

Í síðustu viku grófu fornleifafræðingarnir upp kuml á svæðinu. Fundurinn nú er er um 1-2 metra innan við kumlið, í einhvers konar gryfju sem afmörkuð var með steinum. Áður hafði rafperla komið í ljós á þessu svæði.

„Þessi gryfja er sérstök. Við höfum fundið fullt af beinum í henni, meðal annars hvalbein. Það er eins og sett hafi verið rusl í hana en mögulega var hún grafin í öðrum tilgangi,“ segir Ragnheiður Traustadóttir, sem stýrir uppgreftrinum.

Taflmaðurinn virðist úr leir eða steini. Hann er um 2x2 sentímetrar á stærð og minnir helst á súkkulaðidropa í lögun. Hér má sjá þrívíddarlíkan af gripnum.

Hnefatafl er borðspil sem spilað var frá víkingaöld fram á miðaldir. Reglur þess eru ekki að fullu kunnar í dag. Þekktasta hnefatafl, sem fundist hefur á Íslandi, fannst í kumli í Mývatnssveit um miðja nítjándu öld.

„Þessi fundur styrkir að þarna hafi verið kuml, en svæðið virðist síðar hafa verið nýtt í annað. Það er grunsamlegt að finna þessa gripi í beinasafninu,“ segir Ragnheiður.

Eftir að kumlið fannst í síðustu viku veltu fornleifafræðingarnir upp þeirri spurningu hvort fleiri kynnu að vera í nágrenninu. Frekari rannsóknir á stærra svæði hafa ekki leitt í ljós frekar vísbendingar um slíkt.

Athyglin beinist nú að gryfjunni sem taflmaðurinn fannst í, en stefnt er að því að klára að grafa hana upp fyrir lok vikunnar. „Við erum ekki komin til botns í henni, við höfum lítið getað grafið í dag vegna veðurs. Við vonumst til að geta sagt hvers konar gryfja þetta var með nánari rannsóknum fyrir lok vikunnar,“ segir Ragnheiður.

Mynd: Anna Soffía Ingólfsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.