Talsverðar breytingar fram undan á sveitarstjórnum

Undirbúningur framboðsmála fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Austurlandi eru skammt á veg komnar en kosið verður laugardaginn 26. maí. Útlit er fyrir talsverða endurnýjun, fimmtungur fulltrúa segist ákveðinn í að hætta.

Austurglugginn hefur undanfarnar vikur sent öllum kjörnum aðalfulltrúum á Austurlandi fyrirspurnir um hvort þeir hyggist gefa kost á sér til áframhaldandi setu og birti svör þeirra í síðasta tölublaði.

Af 52 fulltrúum sögðust 12 ákveðnir í að hætta en ellefu ákveðnir í að halda áfram. 16, eða rúm 30%, voru óákveðnir og afgangurinn, fjórðungur, svaraði ekki, vildi ekki gefa upp svar eða vísaði til þess að í viðkomandi sveitarfélagi væru óhlutbundnar kosningar og því allir í framboði. Þeir geta hins vegar beðist undan kjöri.

Flest jákvæðu svörin komu úr Fjarðabyggð, sex af níu bæjarfulltrúum svöruðu að þeir ætluðu að halda áfram. Aðeins einn, Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, ætlar að hætta.

Á Fljótsdalshéraði sögðust þrír bæjarfulltrúar ætla að hætta, þar með báðir fulltrúar Héraðslistans sem er einn þriggja framboða í núverandi meirihlutasamstarfi. Annar fulltrúanna er Sigrún Blöndal sem verið hefur formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á kjörtímabilinu.

Framboðsmál stutt komin

Mjög víða virðast framboðsmálin skammt á veg komin. Þannig svaraði Arnbjörg Sveinsdóttir fyrir hönd Sjálfstæðisfólks á Seyðisfirði að fulltrúarnir væru óákveðnir því ekki væri farið að ræða málin.

Nær allir hreppsnefndarmenn í Breiðdal sögðust ætla að hætta. Sumir tóku fram að það væri óháð sameiningu við Fjarðabyggð en aðrir kváðust ekki reikna með að spurn væri eftir óflokksbundnum í stærra sveitarfélagi. Síðast var óhlutbundin kosning í Breiðdalshreppi. Framboðsmál í þeim sveitarfélögum eru nokkuð frábrugðin stærri sveitarfélögunum og markast svör fulltrúa þaðan af því.

Ekki liggur heldur fyrir hvaða framboð verða í næstu kosningum. Einhver gætu lagt upp laupana og ný komið í staðinn. Flokkar sem haslað hafa sér völl á Alþingi að undanförnu, svo sem Miðflokkurinn, Píratar og Viðreisn, hafa sýnt áhuga á að byggja sig upp með framboðum á sveitarstjórnarstiginu.

Þeir hafa borið víurnar í álitlegt fólk og Miðflokkurinn á Héraði auglýsti nýverið eftir áhugasömu fólki. Bæði nýrri og eldri framboð reikna með að málin skýrist á næstu 2-3 vikum.
Ekki er óalgengt að framboðsmál, einkum í stærstu sveitarfélögunum, séu langt komin um þetta leyti. Viðmælendur Austurgluggans hafa bent á að umrótið í kringum þingkosningarnar í haust hafi seinkað öllum hugsunum um sveitarstjórnarkosningar. Þá heyrast þær raddir að sífellt erfiðara sé að fá fólk til að starfa í sveitarstjórnum, sérstaklega ungt fólk.

Samtökin Ungt Austurland sendu frá sér ályktun að loknum miðstjórnarfundi og stjórnmálanámskeiði í nóvember þar sem ungt fólk var hvatt til að gefa kost á sér og heitið stuðningi. Í ályktuninni eru ungir Austfirðingar hvattir til að vera óhræddir við að stofna eigin framboð til að berjast fyrir áhrifum. Slíkt skoða einstaklingar sem starfað hafa innan samtakanna.

17% hættu á tímabilinu

Þegar horft er á þessar tölur er vert að hafa í huga að þegar hafa orðið nokkrar breytingar á sveitarstjórnunum þar sem fulltrúar sem hlutu kjör síðast hættu á miðju tímabili, oftast vegna flutninga úr viðkomandi sveitarfélagi.

Mestar voru breytingarnar á Vopnafirði, þrír aðalfulltrúar hættu og aðrir þrír sem komnir voru upp í sæti aðalmanns. Þrír duttu út af lista Betra Sigtúns, tveir frá B-lista Framsóknarflokks og óháðra og einn af K-lista félagshyggju.

Í Fjarðabyggð fluttu þrír í burtu, tveir af lista Sjálfstæðisflokks og einn frá Framsóknarflokki en listarnir mynda þar meirihluta. Á Djúpavogi, Fljótsdalshéraði og Borgarfirði hefur einn aðalfulltrúi hætt eða farið í leyfi út kjörtímabilið á hverjum stað. Sveitarstjórnir Breiðdalshrepps, Fljótsdalshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa ekki breyst.

Þessar tölur þýða hins vegar að níu aðalmenn, eða 17%, hafa hætt á tímabilinu. Þegar þeir bætast við þá tólf sem svöruðu könnun Austurgluggans neitandi er endurnýjunarhlutfallið orðið 40%. Það rímar við könnun sem gerð var meðal sveitarstjórnarfólks á landsvísu fyrir áramót en þar sögðust 40% svarenda ætla að hætta og 30% voru óákveðin. Þessu til viðbótar hefur Austurglugginn spurnir af einstaklingum sem stefna á að hætta þótt þeir svari því annaðhvort til að þeir séu óákveðnir eða svari ekki.

Svör austfirskra sveitarstjórnarfulltrúa
Heildarfjöldi: 52
Held áfram: 11
Hætti: 12
Óákveðnir: 16
Svara ekki eða gefa ekki upp afstöðu: 13

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.